Lykilmaður Leverkusen til Bayern?

Tah í leik með þýska landsliðinu
Tah í leik með þýska landsliðinu AFP/Tobias Schwartz

Varnarmaðurinn Jonathan Tah vill ólmur fara til Bayern München og hefur samkvæmt Bild náð samkomulagi við félagið. Tah var einn besti leikmaður Bayer Leverkusen á sögulegu tímabili félagsins í vetur.

Samningur Tah við Leverkusen rennur út næsta sumar og hefur hann látið vinnuveitendur sína vita að hann muni ekki framlengja hann. Leverkusen þarf því að ákveða hvort Tah verði seldur í sumar eða fari á frjálsri sölu næsta sumar.

Vincent Kompany er tekinn við þjálfarastarfinu hjá Bayern og eftir að hafa misst þýska meistaratitilinn til Leverkusen eftir ellefu ára sigurgöngu ætlar félagið sér stóra hluti. Þetta yrði ekki í fyrsta skipti sem Bayern kaupir lykilmenn frá keppinautum sínum en félagið keypti Michael Ballack, Lúcio og Zé Roberto frá Leverkusen árið 2002.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert