Íslendingar lögðu Breta að velli með 107 stigum gegn 94 í fyrsta óopinbera landsleik Íslands í krikket sem fram fór í Mosfellsbæ á laugardag. Valur Gunnlaugsson, sem lék fyrir Íslands hönd, segir að Alþjóðakrikketsambandið hafi hug á að senda til landsins kennara til að kenna grunnskólabörnum krikket.
Leikurinn á laugardag tók um fjórar klukkustundir en einn leikur getur varað frá einu eftirmiðdegi upp í nokkra daga. Valur segist ekki hafa orðið þreyttur eftir leikinn því lítið sé um átök í krikket. „Mestur tíminn fer í að standa og bíða," bætir hann við. Valur segir þó að leikurinn hafi verið jafn og spennandi. Íslenska liðið hefur á að skipa Pakistana, Ástrala, Englendingi og Indverja en þrír mannanna eru giftir íslenskum konum. Fjórmenningarnir eru allir búsettir hér á landi en þeir hafa iðkað krikket frá barnsaldri. Krikket er liðaíþrótt sem tvö lið, hvort með ellefu leikönnum, leika sín á milli. Í reglum sem þýddar hafa verið á íslensku segir að þó svo að leikfyrirkomulag og reglur krikkets séu frábrugðnar hafnabolta, þá sé hugmyndin sú sama. Liðin slá hvort í sínum lotum og reyna að skora stig ("hlaup") meðan andstæðingarnir spila úti á vellinum og reyna að binda enda á leik sláttuliðsins. Þegar bæði lið hafa slegið í jafn mörgum lotum (annaðhvort einni eða tveimur, fer eftir skilyrðum leiksins) vinnur það lið sem hefur fleiri stig ("hlaup"). Reglurnar eru mun ítarlegri og talsvert flóknar og nægir að nefna að þær fylla 21 blaðsíðu af stærðinni A4. Valur segir að þeir félagarnir hafi byrjað að æfa krikket lítilsháttar síðasta sumar en af krafti frá því í vor eftir að Alþjóðakrikketsambandi gaf þeim búnað. Stefna sambandsins er að breiða íþróttina út til fleiri þjóða. Þá vilja þeir fá að senda hingað kennara í vetur sem fer í grunnskólana til að kenna börnum krikket. Valur segir að haft hafi verið samband við nokkra grunnskólakennara og þeir hafi sýnt þessu áhuga. Íslensku krikketleikurunum var einnig sendur búnaður frá Alþjóðasambandinu til að leika innandyra. Valur segir að krikket sé mjög háð veðri, það verði að vera þurrt á og logn. Ef það byrjar að rigna í krikketleik verður að fresta leiknum. Þess vegna geti krikket einvörðungu verið sumaríþrótt hér á landi. Valur segir að bresku krikketleikararnir vilji endilega fá íslenska liðið út til Bretlands. Hann segir tilboðið nokkuð freistandi því einn þeirra hafi boðið þeim til sín þar sem hann býr í kastala í Skotlandi.