Lið Tryggingamiðstöðvarinnar vann krikketleikinn

Frá krikketviðureigninni á Víðistaðatúni í dag.
Frá krikketviðureigninni á Víðistaðatúni í dag. mbl.is/Jón Svavarsson

Lið Tryggingamiðstöðvarinnar hrósaði sigri í óformlegri keppni um Íslandsmeistaratitilinn í krikket, en einvígi liðs TM og Krikketklúbbsins Kylfan var háð á Víðistaðatúni í Hafnarfirði í dag.

„Leiknum lauk með góðum sigri Tryggingamiðstöðvarinnar en úrslitin urðu 179 hlaup gegn 91 þeim í vil," sagði Hallur Örn Jónsson, leikmaður Kylfunnar við fréttavef Morgunblaðsins.

„Þarna öttu kappi tvö 11 manna lið og viðureignin stóð í tæpar fjórar stundir. Það var alþjóðlegur blær yfir þessu því meðal leikmanna voru tveir Englendingar, sinn í hvoru liði, tveir Pakistanir, einn Suður-Afríkumaður og einn Indverji, eða menn frá helstu krikketþjóðum heims," bætti Hallur Örn við.

Auk þessa dæmdi leikinn enskur dómari sem hefur dómararéttindi frá Alþjóðakrikketsambandinu upp á vasann.

Er þetta þriðja árið í röð sem keppni af þessu tagi um Íslandsmeistaratitilinn í krikket er haldin. Hallur Örn sagði að þriðja liðið stundaði íþróttina, Krikketklúbburinn Deiglan, og hefði hann einmitt skorað á leikmenn Kylfunnar til viðureignar sem reynt yrði að koma í kring síðar í mánuðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert