Vilja að ÍSÍ standi að kjöri íþróttamanns ársins

Heiðar Helguson var kjörinn íþróttamaður ársins 2011 af Samtökum íþróttafréttamanna.
Heiðar Helguson var kjörinn íþróttamaður ársins 2011 af Samtökum íþróttafréttamanna.

Frjálsíþróttaþing, sem haldið var um síðustu helgi, skorar á Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ), að standa sjálft að kjöri á íþróttafólki ársins. Til þessa hefur ÍSÍ ekki staðið fyrir slíku kjöri heldur haft samstarf í rúmlega hálfan annan áratug  við Samtök íþróttafréttamanna um sameiginlegt hóf þar sem Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna hefur verið útnefndur samhliða því að veittar hafa verið viðurkenningar ÍSÍ til íþróttamanna sérsambanda þess.

Áður hefur þing Fimleikasambandsins og þing UMSK ályktað í svipaða veru og Frjálsíþróttaþing.

Ályktun Frjálsíþróttaþings er eftirfarandi:

„Frjálsíþróttaþing, haldið 16. og 17. mars 2012 á Selfossi, skorar á Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands að standa fyrir tilnefningum og kjöri íþróttafólks ársins þar sem gætt verði aukinnar fjölbreytni sem fellur að margþættum markmiðum íþróttastarfs og skráðir iðkendur innan ÍSÍ geti sent inn tilnefningar og greitt atkvæði.“   

Í tilkynningu frá Frjálsíþróttasambandi Íslands segir ennfremur:

„Í greinargerð með ályktuninni segir m.a. að löngu tímabært sé að endurskoða aðkomu ÍSÍ að vali íþróttamanns ársins. Þótt Samtök íþróttafréttamanna hafi átt frumkvæði að núverandi tilhögun fyrir rúmri hálfri öld og haldið utan um verkefnið af myndarskap er ekki sjálfgefið að óbreytt tilhögun sé besti kostur íþróttahreyfingarinnar. Góð reynsla af árlegum verðlaunahátíðum í listgreinum (Eddan, Gríman, Íslensku tónlistarverðlaunin) bendir til að fjölbreytt verðlaun í íþróttastarfi myndu verða til að auka skilning á því að íþróttastarf snýst ekki eingöngu um árangur afreksíþróttafólks. Í ljósi jafnréttismarkmiða íþróttahreyfingarinnar er eðlilegt að efna til vals á íþróttakarli og íþróttakonu ársins. Að auki er unnt að auka fjölbreytni með því að velja íþróttalið ársins, fyrirmynd ársins, leiðtoga ársins (úr röðum forystumanna í íþróttahreyfingunni), þjálfara ársins og íþróttaviðburð ársins, svo að dæmi séu tekin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka