Blikar verða að vinna í kvöld

Arnór Sveinn í baráttunni við Jóhannes Karl Guðjónsson í leik …
Arnór Sveinn í baráttunni við Jóhannes Karl Guðjónsson í leik Breiðabliks og Fylkis. mbl.is/Eggert

Breiðablik sækir KR heim í 13. umferð Pepsi-deilar karla í kvöld. Blikar þurfa nauðsynlega á sigri að halda ef þeir ætla að halda í við KR í toppbaráttu deildarinnar. „Leikurinn leggst gríðarlega vel í okkur. Við erum spenntir að spila svona stórleik gegn góðu liði,“ segir Arnór Sveinn Aðalsteinsson, fyrirliði Breiðabliks, við mbl.is.

Aðspurður segir Arnór að Breiðablik þurfi á öllum stigunum að halda í kvöld. „Við leggjum leikinn þannig upp, enda ætlum við að vera í toppbaráttunni. Sigur er gríðarlega nauðsynlegur svo við missum þá ekki of langt frá okkur.“

Fyrirliðinn segir að Blikar verði að einbeita sér að sínum leik í kvöld. „Við höfum lagt alla leikina upp í sumar þannig að við einbeitum okkur að okkar leik. Hann snýst um að færa boltann hratt á milli kanta, vera ákveðnir og spila góða vörn.“

Arnóri líst gríðarlega vel á nýjasta leikmann Kópavogsliðsins en Jon­ath­an Glenn kom til liðsins að láni frá ÍBV. „Hann er hörkuleikmaður. Það er mjög mikill kraftur í honum og hann kann að skora mörk og á eftir að gera mikið fyrir okkur.“ Arnór telur að Glenn verði í leikmannahópi Breiðabliks í kvöld. 

Allir leikmenn liðsins eru klárir í bátana í kvöld nema Damir Mum­in­ovic en hann tekur út leikbann. „Ég er nokkuð viss um að allir aðrir séu klárir.“ Arnór hlær þegar blaðamaður spyr hvort hann lofi sigri í kvöld. „Ég lofa þér allavega að við leggjum allt í leikinn til að vinna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert