Lið frá Ítalíu vildi fá Hauk Helga

Haukur Helgi Pálsson
Haukur Helgi Pálsson mbl.is/Árni Sæberg

Ítalska A-deildarliðið Cantú í körfuknattleik setti sig í samband við landsliðsmanninn Hauk Helga Pálsson, leikmann Njarðvíkinga, á dögunum með það fyrir augum að fá hann til liðs við sig. En þar sem Haukur Helgi er ekki með ákvæði í samningi sínum við Suðurnesjaliðið um að geta farið áður en tímabilinu lýkur varð ekkert af samningaviðræðum hans við félagið.

„Það var ekki komið tilboð á borðið heldur fyrirspurn og mikill áhugi. Ég er ekki með það inni í samningi mínum við Njarðvík að geta farið út aftur svo þetta var eiginlega drepið í fæðingu. Ég ræddi aðeins við Njarðvíkingana. Þetta var spennandi og ég er spenntur fyrir því að komast aftur út en svona er þetta bara. Ég verð bara að standa við gerðan samning og ég skil vel sjónarmið Njarðvíkinga,“ sagði Haukur Helgi í samtali við Morgunblaðið.

Haukur Helgi gekk í raðir Suðurnesjaliðsins í október eftir að hafa spilað í sex vikur með þýska liðinu Mitteldeutscher. Hann er uppalinn í Fjölni og lék með LB Basket í Svíþjóð á síðustu leiktíð og síðan Laboral Kutxa á Spáni en eftir frábæra frammistöðu með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu í Þýskalandi í haust bauðst honum stuttur samningur við Mitteldeutscher. Samningur Hauks við Njarðvíkinga rennur út eftir tímabilið.

„Ég vona bara að það opnist möguleiki hjá mér að komast út eftir tímabilið hvort sem það verður til Cantú eða einhvers annars liðs. Hugur minn stefnir á að fara aftur út og ég held að ég sé tilbúinn til þess,“ sagði Haukur Helgi. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert