Geir og Guðmundur í Heiðurshöll ÍSÍ

Guðmundur Gíslason tekur við viðurkenningu úr höndum Lárusar Blöndal, forseta …
Guðmundur Gíslason tekur við viðurkenningu úr höndum Lárusar Blöndal, forseta ÍSÍ. mbl.is/Ófeigur

Guðmundur Gíslason og Geir Hallsteinsson voru teknir inn í Heiðurshöll Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í kvöld, en þau voru heiðruð í Hörpu þar sem íþróttamaður ársins er krýndur.

Sundmaðurinn Guðmundur setti á sínum tíma 152 Íslandsmet. Hann var kjörinn íþróttamaður ársins í tvígang, 1962 og 1969. Meðal afreka hans er Norðurlandamet í 400 metra fjórsundi árið 1962. Hann keppti á fernum Ólympíuleikum og varð fyrstur Íslendinga til þess. Hann keppti í Róm 1960, Tókýó 1964, Mexíkóborg 1968 og í Vestur-Þýskalandi 1972.

Geir Hallsteinsson er einn fremsti handknattleiksmaður Íslands. Hann var kjörinn íþróttamaður ársins árið 1968. Hann var þá í íslenska landsliðinu sem lagði Danmörku í fyrsta sinn og var í sterku liði FH. Gekk til liðs við Göppingen 1963 og var meðal fremstu skytta vestur-þýsku deildarinnar. Hann lék á sínum tíma 107 landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim 469 mörk.

Heiðurshöll ÍSÍ er óáþreifanleg höll afreksíþróttafólks og afreksþjálfara Íslands, í ætt við Hall of Fame á erlendri grundu. Framkvæmdastjórn ÍSÍ útnefnir einstaklinga í Heiðurshöll ÍSÍ eftir reglugerð þar að lútandi og er Heiðursráð ÍSÍ ráðgefandi aðili varðandi tilnefningar.

Með þessu verkefni vill ÍSÍ skapa vettvang til að setja á frekari stall okkar framúrskarandi fólk og skapa minningar í máli og myndum af þeirra helstu afrekum. Var Heiðurshöllin sett á stofn í tilefni 100 ára afmælis ÍSÍ árið 2012.

Vilhjálmur Einarsson var sá fyrsti sem tekinn var inn í Heiðurshöllina og hér að neðan má sjá þá einstaklinga sem heiðraðir hafa verið með þessu móti.

2012 - Vilhjálmur Einarsson, frjálsar íþróttir
2012 - Bjarni Friðriksson, júdó
2012 - Vala Flosadóttir, frjálsar íþróttir
2013 - Jóhannes Jósefsson, glíma
2013 - Sigurjón Pétursson, glíma
2013 - Albert Guðmundsson, knattspyrna
2013 - Kristín Rós Hákonardóttir, sund
2014 - Ásgeir Sigurvinsson, knattspyrna
2014 - Pétur Karl Guðmundsson, körfuknattleikur
2015 - Gunnar A. Huseby, frjálsar íþróttir
2015 - Torfi Bryngeirsson, frjálsar íþróttir
2015 - Ríkharður Jónsson, knattspyrna
2015 - Sigríður Sigurðardóttir, handknattleikur

Geir Hallsteinsson skorar í landsleik gegn Hollendingum árið 1977.
Geir Hallsteinsson skorar í landsleik gegn Hollendingum árið 1977. mbl.is/RAX
Brynjar Geirsson, sonur Geirs Hallsteinssonar, flutti þakkarræðu fyrir hönd föður …
Brynjar Geirsson, sonur Geirs Hallsteinssonar, flutti þakkarræðu fyrir hönd föður síns. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert