Wozniacki með liðagigt

Caroline Wozniacki.
Caroline Wozniacki. AFP

Ein skærasta íþróttastjarna Dana, tenniskonan Caroline Wozniacki, greindi frá því í dag að hún hefði verið greind með liðagigt.

Wozniacki er 28 ára gömul og sigraði á Opna ástralska mótinu fyrr á árinu, einu af risamótunum í íþróttinni. Hún sagðist hafa áttað sig á því að eitthvað væri að þar sem hún væri farin að þekkja líkama sinn vel eftir öll árin í atvinnumennskunni. „Fyrst eftir greininguna var ég í áfalli. Manni finnst maður vera hraustasta manneskja í heimi þegar maður er þekkt íþróttakona, en svo er maður allt í einu að glíma við veikindi,“ sagði Wozniacki þegar hún greindi fjölmiðlafólki frá veikindum sínum. 

Wozniacki segir að hægt sé að meðhöndla gigtina og það séu góð tíðindi. Hún sé í meðhöndlun hjá færum læknum og fái lyf sem hjálpi mikið til. Í ljós hafi komið að veikindin hafi uppgötvast snemma, sem sé jákvætt. Ekki er annað að heyra á Wozniacki en að hún muni halda tennisferli sínum áfram af fullum krafti en ef til vill mun tíminn leiða í ljós hvernig henni reiðir af. 

Wozniacki segist hafa fundið fyrir einkennum að loknu Wimbledon-mótinu í sumar. Einn morguninn gat hún ekki lyft höndunum upp fyrir höfuð og ýmislegt fleira. Hún fékk greininguna fyrir nokkru en ákvað að greina ekki frá veikindunum í fjölmiðlum fyrr en að keppnistímabilinu loknu. 

Wozniacki er 28 ára gömul og hefur verið atvinnumaður síðan 2005. Hún hefur þénað um 30 milljónir dollara á keppnisferli sínum og var um tíma í efsta sæti heimslistans. Wozniacki var fánaberi Dana á Ólympíuleikunum í Ríó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert