Eina íslenska konan í Tókýó

Snæfríður Sól Jórunnardóttir verður á meðal keppenda á Ólympíuleikunum í …
Snæfríður Sól Jórunnardóttir verður á meðal keppenda á Ólympíuleikunum í Tókýó. Ljósmynd/Hörður Oddfríðarson

Sundkonan Snæfríður Sól Jórunnardóttir verður eina íslenska konan sem tekur þátt á Ólympíuleikunum í Tókýó sem hefjast í júlí. Þetta staðfesti ÍSÍ, Íþrótta- og ólympíusamband Íslands.

Snæfríður fékk úthlutað kvótasæti í sundkeppni Ólympíuleikanna þar sem hún mun keppa í bæði 100 metra og 200 metra skriðsundi en hún náði B-lágmarki fyrir leikana í mars á þessu ári. Þetta eru hennar fyrstu Ólympíuleikar.

Snæfríður Sól syndir í undanrásum í 200 metra skriðsundi 26. júlí og undanrásum í 100 metra skriðsundi 28. júlí.

Snæfríður Sól verður fjórði íslenski keppandinn á leikunum í ár en sundmaðurinn Anton Sveinn McKee náði lágmarki fyrir leikana á síðasta ári og þá fengu skotmaðurinn Ásgeir Sigurgeirsson og kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason úthlutað kvótasæti á leikunum.

Það verða því fjórir íslenskir keppendur í Tókýó og er þetta fámennasta sveit Íslands á sumarólumpíuleikunum frá því í Tókýó 1964.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert