Braut gólfið á EM

Eygló Fanndal Sturludóttir á mótinu í Albaníu þar sem hún …
Eygló Fanndal Sturludóttir á mótinu í Albaníu þar sem hún hafnaði í 9. sæti í sínum flokki eftir að hafa týnt öllum keppnisbúnaði og brotið gólfið. Hún kveðst ekki alveg sátt við sitt en dagur kemur eftir þennan. Ljósmynd/Hookgrip

„Þetta var sem sagt Evrópumót fullorðinna og hundraðasta Evrópumótið sem haldið hefur verið í ólympískum lyftingum,“ segir Eygló Fanndal Sturludóttir, 21 árs gömul lyftingakona og læknanemi á öðru ári við Háskóla Íslands, af Evrópumótinu í Tirana í Albaníu sem fram fór um mánaðamótin síðustu.

„Þetta var mjög skemmtilegt mót og gekk bara frekar vel, ég hefði viljað gera aðeins betur en maður getur ekki alltaf toppað sig,“ segir Eygló sem keppir í -71 kg flokki en reyndar munaði litlu að hún gæti ekki keppt þar sem töskurnar hennar með öllum keppnisbúnaði týndust á leið til Albaníu, ekki fyrsta tilfelli horfins farangurs á evrópskum flugmarkaði síðustu vikur svo sem fjöldi frétta fjölmiðla álfunnar hefur snúist um.

„Þetta reddaðist samt allt daginn fyrir mót, þannig að ég náði að keppa,“ heldur læknaneminn áfram en það var engin önnur en hennar eigin móðir, Harpa Þorláksdóttir, sem kom til bjargar í farangursmálinu og náði að útvega dóttur sinni nýjan keppnisbúnað á elleftu stundu og er frásögnin af þessu íslensk-albanska björgunarafreki með slíkum ólíkindum að hér verður gert hlé á frásögninni af mótinu til að koma svaðilför Hörpu á framfæri.

Hörpu þáttur Þorláksdóttur

„Það má eiginlega segja að ég hafi orðið hálfgerður reddari í þessari ferð þegar farangurinn hennar týndist og ég flaug í skyndi með nýjan búnað út,“ segir móðir Eyglóar í samtali við mbl.is. „Málið er að hún flýgur alltaf út með keppnisbúnaðinn sinn í handfarangri til að tryggja að hann komist alla leið og hún geti æft og keppt þó svo að annar farangur týnist sem er alltaf raunhæfur möguleiki þegar verið er að millilenda og fljúga á fjarlæga staði,“ heldur Harpa áfram.

Eygló setti tvö Íslandsmet í Albaníu og stefnir nú ótrauð …
Eygló setti tvö Íslandsmet í Albaníu og stefnir nú ótrauð á næsta mót í september, tvær æfingar á dag og engin miskunn. Ljósmynd/Aðsend

Vegna plássleysis í vél British Airways hafi starfsmenn þar hins vegar skipað dóttur hennar að innrita handfarangurinn sem svo skilaði sér aldrei á áfangastað. Eygló hringdi í öngum sínum frá Albaníu þá um kvöldið og sagði farir sínar ósléttar.

„Hún sá fram á að hún myndi ekki geta æft úti né keppt þar sem um sérstaka skó er að ræða og auk þess vantaði hana keppnisbúninginn, beltið og hnéhlífarnar. Við foreldrarnir fórum því bara í að redda nýjum búningi, skóm og öðru á laugardagskvöldi, panta flug fyrir mig og ég var komin í loftið morguninn eftir á leið til Albaníu með nýtt sett af búnaði,“ segir björgunarsveitin Harpa af reddingum þessum. 

Boðnir og búnir

„Það sem var svo magnað að upplifa var hvað við mættum ótrúlegri góðvild margra á laugardagskvöldi þegar margir voru í útskriftarveislum eða í útilegum,“ segir Harpa hrærð. „Meðal annars var sölustjóri í Sportvörum, sem selja skóna, og sem við þekkjum ekki neitt, tilbúinn að leyfa okkur að sækja sig í útskriftarveislu, skutlast með hann heim og ná í lykla að búðinni, fara í búðina með okkur og afgreiða okkur með skó til að hægt væri að redda þessu. Einnig var Júlían [J.K. Jóhannsson] í SBD [lyftingabúnaðarversluninni] á Íslandi allur af vilja gerður til að aðstoða okkur,“ heldur Harpa frásögn sinni áfram.

Minnstu munaði að mótið væri ónýtt hjá Eygló eftir að …
Minnstu munaði að mótið væri ónýtt hjá Eygló eftir að farangur hennar hvarf í flutningi British Airways en Harpa móðir hennar greip þá til sinna ráða og mætti til Albaníu klyfjuð búnaði. Ljósmynd/Hookgrip

Úr því hún var svo komin til Albaníu var ekki annað í spilinu en að dvelja þar og fylgjast með mótinu sem hún kveður hafa verið upplifun. „Þá sá ég hversu stór þessi keppni er og hve vel þær standa sig á alþjóðlegan mælikvarða,“ segir móðirin og bjargvætturinn Harpa Þorláksdóttir og við hverfum aftur til dóttur hennar og frammistöðu hennar á mótinu.

Missti stöngina og braut gólfið

„Þjálfarinn okkar, Ingi Gunnar [Ólafsson] var með okkur, hann er sem sagt landsliðsþjálfarinn. Ég opnaði svo með 89 kílóa lyftu í snörun og missti hana svo ég reyndi hana aftur og það gekk mjög vel, flott lyfta bara. Svo fór ég upp í 94 kíló, náði stönginni upp fyrir haus en tók þá nokkur skref fram og endaði með að ég fór út af pallinum, missti stöngina á gólfið og braut gólfið,“ segir Eygló af 94 kílógramma lyftunni sem fór ekki alveg að óskum.

Í jafnhendingu, hinni grein ólympískra lyftinga, opnaði hún í 112 kg sem gekk vel, reif svo upp 116 eins og enginn væri morgundagurinn og reyndi að lokum við 120 sem ekki vildi upp í þetta skiptið en Eygló á 118 kg sem sinn besta árangur í jafnhendingu.

Eygló lyfti 205 kg í samanlögðu og hlaut Nordic Elite …
Eygló lyfti 205 kg í samanlögðu og hlaut Nordic Elite Pin. Þessi mynd er frá móti á Íslandi. Ljósmynd/LSÍ/Árni Rúnar Baldursson

„Ég hefði lent í þriðja sæti hefði ég náð 120 en 116 kílóin voru Íslandsmet svo ég er alveg sátt. Ég lenti í 9. sæti og við vorum tæplega 20 í flokknum. Ég náði 205 kílóum í samanlögðu sem er líka Íslandsmet og nóg til að skila mér svokölluðum Nordic Elite Pin,“ segir Eygló sem auk þess að hafna í 9. sæti í samanlögðu tók 5. sæti í jafnhendingu og 10. sæti í snörun. Þessar sætatölur gilda fyrir A- og B-riðla samanlagt en Eygló fór með sigur af hólmi í B-riðlinum sem var hennar riðill.

Íþróttasálfræðingur bjargvættur

„Nei, ég er ekki sátt,“ segir Eygló aðspurð, „það var fúlt að missa fyrstu, það er lyfta sem maður vill alltaf negla, en maður þarf bara að spila með það sem maður hefur og gera það besta úr þessu. Við þjálfarinn minn vorum búin að undirbúa viðbrögðin við því ef svona lagað kæmi upp og við vinnum bara úr því,“ segir læknaneminn og lyftingakonan.

Fram undan hjá Eygló er Evrópumót undir 23 ára á sama stað í Albaníu í haust en eingöngu innan Evrópu er keppt í þeim aldursflokki. Er hún þegar komin á fullt í æfingum fyrir mótið. „Það er bara alla daga tvisvar á dag,“ segir Eygló sem hefur lagt stund á ólympískar lyftingar í eitt og hálft ár.

„Ég var í B-riðli í mínum flokki,“ segir Katla Björk Ketilsdóttir, 22 ára lyftingakona og nemandi á öðru ári í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands, sem keppti í -64 kg flokki á sama móti. „Það voru um það bil tíu til tólf í hverju holli,“ segir hún enn fremur en þrátt fyrir þessa niðurskiptingu þyngdarflokksins er raðað í verðlaunasæti miðað við heildarhópinn.

Katla er þriðja stigahæsta kona Íslands í ólympískum lyftingum og …
Katla er þriðja stigahæsta kona Íslands í ólympískum lyftingum og gerði góða för til Albaníu ásamt Eygló. Hún kveður þær stöllur hafa komið sér upp ákveðinni aðferðafræði til að sigrast á tímamismun á mótum erlendis. Ljósmynd/Atginsta

„Þetta gekk mjög vel, eitt af mínum fyrstu fullorðinsmótum. Ég náði öllum lyftum gildum sem er bara draumur, endaði með 88 kíló í snörun og 106 kíló í jafnhendingu, fyrir mótið var ég búin að vera að vinna með íþróttasálfræðingi sem hjálpaði mér mjög mikið, það var margt í gangi fyrir þetta mót, Eygló týndi töskunni sem var heilmikið stress og ég er mjög þakklát fyrir þessa aðstoð,“ segir Katla frá, en fyrri þyngdir hennar á mótinu voru 82 og 86 kg í snörun og 101 og 104 í jafnhendingu.

Þriðja stigahæst á Íslandi

Eins nefnir hún næringarfræðing sem nú sé henni mjög innan handar þar sem hún stendur í þeim stórræðum að létta sig um flokk, úr -64 í -59, sem hún kveður ekki átakalaust. „Þetta var rosaleg upplifun að fara og sjá þetta, það er ótrúlega gaman að keppa á svona stórum mótum og sjá hvar maður stendur,“ segir Katla og ber Albönum vel söguna varðandi skipulag og alla umgjörð.

Katla setti alls 14 Íslandsmet á mótinu í Albaníu og …
Katla setti alls 14 Íslandsmet á mótinu í Albaníu og geri aðrir betur. Ljósmynd/Atginsta

Hún lenti í 11. sæti af 25 keppendum í sínum þyngdarflokki og setti 14 Íslandsmet auk þess að hljóta Nordic Elite Pin eins og Eygló en svo sú vegtylla sé útskýrð er Nordic Elite Pin viðurkenning sem veitt er þeim sem ná ákveðnum árangri eftir stöðlum Norðurlandanna og hafa staðist öll lyfjapróf á ferlinum. Þeir sem hafa hlotið viðurkenninguna fá beinan aðgang á öll mót Norðurlandanna. Til að útskýra 14 Íslandsmet í sex lyftum keppir Katla hvort tveggja í fullorðins- og U23-flokki svo Íslandsmet í einstökum lyftum eru skráð í hvorum tveggja flokkanna auk samanlagðs árangurs.

„Þetta var rosaleg upplifun að fara og sjá þetta, það …
„Þetta var rosaleg upplifun að fara og sjá þetta, það er ótrúlega gaman að keppa á svona stórum mótum og sjá hvar maður stendur.“ Ljósmynd/Atginsta

Katla, sem eftir þetta mót er þriðja stigahæsta kona Íslands í ólympískum lyftingum, er einnig á leiðinni á U23-mótið í Albaníu í haust og handan þess bíður sjálft heimsmeistaramótið í Kólumbíu í desember sem að hennar sögn er gríðarmikilvægt þar sem það gefur stig til keppnisréttar á sjálfum Ólympíuleikunum.

Stefnir á Skandinavíu

Hvernig skyldi vera að keppa á slíkum mótum þar sem tímamismunur við Ísland er orðinn töluverður? „Við erum eiginlega búnar að finna trikkið í því sem er að fara helst ekki í næturflug heldur dagsflug og koma á staðinn á fjórða degi fyrir mót, hafa þá góðan tíma til að sofa og æfa og venjast nýju tímabelti,“ svarar Katla.

Hún lyftir undir merkjum Lyftingafélagsins Massa í Keflavík og úr því gleymdist að spyrja Eygló um félag í fyrra viðtalinu hér fær Katla að svara því en Eygló æfir hjá Lyftingafélagi Reykjavíkur, áður Kópavogs.

Katla býr og æfir í Keflavík, vinnur fullt starf sem …
Katla býr og æfir í Keflavík, vinnur fullt starf sem stuðningsfulltrúi í grunnskóla og nemur uppeldis- og menntunarfræði við HÍ enda kveðst hún mjög lunkin við að skipuleggja tíma sinn. Það er deginum ljósara. Ljósmynd/Atginsta

Auk stífra æfinga og háskólanáms vinnur Katla fullt starf til að standa undir kostnaði við keppnisferðalög sem keppendur greiða að miklu leyti sjálfir. Var hún að vinna sem stuðningsfulltrúi í Holtaskóla í Keflavík nú fram að skólaslitum sumarsins en veit ekki hvort hún á afturkvæmt þangað. „Við kærastinn minn erum hugsanlega að flytja til Noregs eða Svíþjóðar svo nú er ekki alveg ljóst hvað verður,“ ljóstrar Katla upp um framtíð sína.

„Ég hefði auðvitað viljað verja meiri tíma í námið,“ segir hún, innt eftir því hvort hún hafi aðgang að fleiri en þessum hefðbundnu 24 tímum, „en ég er mjög góð í að skipuleggja mig, það er einn af mínum höfuðeiginleikum,“ segir Katla Björk Ketilsdóttir lyftingakona að lokum.

Fyrir áhugasama má fylgjast með lyftinga- og öðrum myndum á Instagram-síðum Eyglóar og Kötlu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert