Úr brjósklosi undir stöngina

„Sumt svekkjandi, margt lærdómsríkt en fyrst og fremst skemmtilegt,“ segir …
„Sumt svekkjandi, margt lærdómsríkt en fyrst og fremst skemmtilegt,“ segir Kristrún Sveinsdóttir sem tók silfrið í -57 kg flokki og setti tvö Íslandsmet. Ljósmynd/Hinrik Pálsson/Kraftlyftingasamband Íslands

Kolbrún Katla Jónsdóttir keppti í +84 kg flokki á Norðurlandameistaramóti unglinga í kraftlyftingum sem fram fer í Jönköping í Svíþjóð um helgina og hafnaði í þriðja sæti af þremur keppendum flokksins.

„Þetta  er mitt fyrsta erlenda mót,“ segir Kolbrún við mbl.is, „ég átti mjög gott mót og bætti mig um heilan helling,“ heldur hún áfram en Kolbrún lyfti 150 og 160 kg í hnébeygju. Í þriðju lyftu réðst hún til atlögu við 170 kg og hafði þau upp en dómarar voru ekki sáttir við dýpt beygjunnar, þar gildir sú regla að efsti mjaðmaliður fari niður fyrir hné í dýpstu stöðu og nái keppandi því ekki má hann reikna með ógildingu. Svo fór í góðri tilraun Kolbrúnar.

Kolbrún með bronsið eftir frumraunina á móti erlendis. „Ég hlakka …
Kolbrún með bronsið eftir frumraunina á móti erlendis. „Ég hlakka til að sjá hvert ég stefni næst í þessari frábæru íþrótt,“ segir hún af deginum. Ljósmynd/Hinrik Pálsson/Kraftlyftingasamband Íslands

Í bekkpressu lyfti hún 75 kg, gerði ógilt í lyftu tvö með 80 en náði gildum 80 kg í þriðju lyftu sem var fimm kg bæting hjá henni. Í réttstöðulyftunni bætti Kolbrún um betur og bætti sig um tíu kg, lyfti 150, 165 og 172,5 kg, allt gildar og fínar lyftur.

„Þetta mót var sjúklega skemmtilegt og góð reynsla. Ég hlakka til að sjá hvert ég stefni næst í þessari frábæru íþrótt,“ segir Kolbrún eftir daginn.

„Verður slegið á næsta móti“

Ragna Kristín Guðbrandsdóttir keppti í -63 kg flokki og hafnaði þar í öðru sæti af tveimur keppendum. Ragna vigtaðist 61,85 kg inn í flokkinn og réðst á stöngina. Hún lyfti 130 kg í hnébeygju sem er jöfnun á Íslandsmeti „sem verður slegið á næsta móti“, segir Ragna kokhraust.

Í bekkpressu lyfti hún mest 67,5 kg sem er hennar besti árangur á móti, 135 kg í réttstöðu sem einnig er hennar besti árangur á móti og skilaði af sér 332,5 kg í samanlögðu sem nægir henni sem lágmark inn á Evrópumeistaramót.

Ragna Kristín Guðbrandsdóttir með silfur eftir 332,5 kg í samanlögðu, …
Ragna Kristín Guðbrandsdóttir með silfur eftir 332,5 kg í samanlögðu, nýrisin úr brjósklosi og þriggja ára æfingahléi. Ljósmynd/Hinrik Pálsson/Kraftlyftingasamband Íslands

„Ég var með níu lyftur gildar af níu og bætingar svo ég gæti ekki verið ánægðari með daginn,“ segir Ragna, „sérstaklega þegar ég hugsa um að ég byrjaði bara aftur að lyfta eftir brjósklosið fyrir rúmu ári eftir að hafa ekki lyft í þrjú ár. Ég er spennt fyrir framhaldinu og frekari bætingum,“ segir hún enn fremur.

Kristrún Sveinsdóttir keppti í -57 kg flokki og hafnaði í öðru sæti af þremur keppendum. „Sumt svekkjandi, margt lærdómsríkt en fyrst og fremst skemmtilegt,“ segir Kristrún sem lyfti 112,5, 120 og 125 kg í hnébeygju, 57,5, 62,5 og 62,5 aftur í bekk og að lokum 120, 127,5 og 132,5 í réttstöðulyftu, síðasta þyngdin Íslandsmet, og þar með 315 kg í samanlögðu, einnig Íslandsmet.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert