Gat varla lyft kaffibollanum

Matthildur tekur vel undir lofsöng Matthíasar Jochumssonar með gullið um …
Matthildur tekur vel undir lofsöng Matthíasar Jochumssonar með gullið um hálsinn á verðlaunapallinum, sannarlega ekkert eilífðar smáblóm þar á ferð heldur hrein bekkpressuvél, 120 kílógrömm ruku upp í höndum hennar. Ljósmynd/Hinrik Pálsson/Kraftlyftingasamband Íslands

Matthildur Óskarsdóttir og Alexandrea Rán Guðnýjardóttir kepptu í bekkpressu á Norðurlandameistaramótinu í kraftlyftingum unglinga í Jönköping í Svíþjóð í dag og fóru báðar með sigur af hólmi í sínum flokkum, Alexandra í -63 kg og Matthildur -84 kg.

Alexandrea fékk fyrstu lyftu sína ógilta, 100 kg, en náði þeirri þyngd í annarri tilraun og hafði þá þegar sigrað í þyngdarflokki sínum svo hún spreytti sig ekki á þriðju lyftunni. Þær voru fjórar í -63 kg flokki.

Alexandrea á efsta palli eftir að hafa gert sér lítið …
Alexandrea á efsta palli eftir að hafa gert sér lítið fyrir og skellt upp 100 kílógrömmum í bekkpressu í -63 kg flokki. Ljósmynd/Michael Bengtsson

Segir Alexandrea að hún hafi með þessum titli náð að innsigla þau markmið sem hún hafði sett stefnuna á á erlendum mótum, en þau voru að sigra á HM, EM og NM og má því segja að hún hafi gert það sem gera þurfti.

Annar gulldagur

Matthildur Óskarsdóttir sýndi það enn og sannaði á sínum síðari keppnisdegi að hún er úr stáli í gegn. Matthildur vaknaði veik í morgun, með flensu og hita, og gat að eigin sögn varla lyft fyrsta kaffibolla dagsins. Hún reif sig í gang og rúmlega það, fékk allar lyftur sínar í bekknum gildar, 110, 115 og 120 kg, og stóð þar með uppi sem sigurvegari í þriggja kvenna flokki.

Árangur Matthildar í gær var ekki síðri þar sem hún hlaut einnig gull í sínum flokki, sigraði í öllum þremur greinunum, bekkpressu, hnébeygju og réttstöðulyftu, auk þess að setja Norðurlandamet og þrjú Íslandsmet.

Þau tíðindi bárust svo af lokahófi Norðurlandamótsins, sem fram fer í kvöld, að Matthildur hefði verið kölluð sérstaklega upp og kynnt sem stigahæst kvenkyns keppenda í bekkpressu á mótinu yfir alla þyngdarflokka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert