SR vann óvæntan sigur á Akureyri í fyrsta leik

Leikmenn SR fagna einu marka sinna í kvöld.
Leikmenn SR fagna einu marka sinna í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Skautafélag Reykjavíkur lagði Skautafélag Akureyrar nokkuð óvænt, 7:3, í fyrsta leik úrslitakeppni Íslandsmóts karla í íshokkí í kvöld.

SA vann deildina nokkuð þægilega en liðið endaði með 44 stig á toppnum, 22 stigum á undan SR. Þá hafa Akureyringar unnið fjóra Íslandsmeistaratitla í röð.

Andri Már Mikaelsson, fyrirliði SA, með pökkinn í leiknum. Styrmir …
Andri Már Mikaelsson, fyrirliði SA, með pökkinn í leiknum. Styrmir Maack sækir að honum. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Fyrsti leikhluti var mjög fjörugur en Halldór Skúlason kom Akureyringum yfir á 13. mínútu. Jonathan Outma jafnaði fyrir SR á 16. mínútu en einungis mínútu síðar kom Unnar Rúnarsson SA aftur yfir. Þegar rétt rúmlega mínúta var eftir af fyrsta leikhluta jafnaði svo Bjarki Jóhannesson metin fyrir SR og staðan var því 2:2 að honum loknum.

Þegar rúmlega átta mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta komst SR svo yfir í fyrsta sinn í leiknum með marki frá Kára Arnarssyni. Eins og vanalega þegar þessi lið mætast var mikill hiti í leiknum en alls fengu leikmenn liðanna 11 sinnum tveggja mínútna brottvísun, þar af sex sinnum í öðrum leikhluta. 

Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Í þriðja leikhluta gerðu gestirnir svo út um leikinn. Þorgils Eggertsson skoraði fjórða mark SR þegar leikhlutinn var tæplega tveggja mínútna gamall og á 49. mínútu bætti Níels Hafsteinsson við fimmta markinu. Hafþór Andri Sigrúnarson minnkaði muninn fyrir SA einungis hálfri mínútu eftir mark Níelsar en á lokamínútum leiksins bættu Reykvíkingar við tveimur mörkum, eftir að SA tók markvörðinn sinn af velli til að bæta í sóknina.

Fyrst skoraði Kári annað mark sitt og sjötta mark SR en það var Styrmir Maack sem rak smiðshöggið og bætti sjöunda markinu við.

SR er því með forystu, 1:0, eftir fyrsta leik einvígisins en leikur tvö fer fram í Skautahöllinni í Laugardal kl. 19.45 á fimmtudaginn. Vinna þarf þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari.

Jóhann Már Leifsson, leikmaður SA, með pökkinn í leiknum.
Jóhann Már Leifsson, leikmaður SA, með pökkinn í leiknum. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert