Lést aðeins sextán ára

Mia Sophie Lietke var aðeins 16 ára gömul og átti …
Mia Sophie Lietke var aðeins 16 ára gömul og átti framtíðina fyrir sér í nútíma fimleikum. Ljósmynd/DTB

Þýska fimleikastúlkan Mia Sophie Lietke lést í gær, einungis 16 ára að aldri. Er talið að hún hafi fengið hjartaáfall vegna undirliggjandi, ógreinds hjartasjúkdóms.

Þýski miðillinn Bild greinir frá en þar er þó tekið fram að nákvæm dánarorsök komi að fullu í ljós að krufningu lokinni.

Lietke var í fremstu röð í fimleikum í Þýskalandi, þar sem hún er til að mynda ríkjandi meistari í nútíma fimleikum í unglingaflokki.

„Ég veit ekki hvað ég get sagt. Mig skortir orð. Hún var svo hæfileikarík, helgaði sig íþróttinni og lagði sig ávallt 100 prósent fram. Hún elskaði það sem hún fékkst við.

Hana dreymdi um að komast á Ólympíuleikana og vann hörðum höndum að því að komast á þá. Ég er viss um að henni hefði tekist það.

Þetta er svo sorglegt. Ég get ekki ímyndað mér hvað fjölskylda hennar er að ganga í gegnum núna,“ sagði Magdalena Brzeska, þjálfari Lietke, í samtali við Bild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert