Getnaðarlimurinn fraus við keppni

Calle Halfvarsson lenti í miður skemmtilegri reynslu um helgina.
Calle Halfvarsson lenti í miður skemmtilegri reynslu um helgina. AFP

Sænski skíðagöngumaðurinn Calle Halfvarsson lenti í töluverðum ógöngum við keppni á skíðagöngumótinu í Ruka í Finnlandi um liðna helgi.

Á sjöunda hring af átta í 20 kílómetra skíðagöngu lenti Halfvarsson í þeirri miður skemmtilegu reynslu að getnaðarlimur hans fraus í kuldanum í Ruka, þar sem frost fór niður í -15 gráður.

„Getnaðarlimurinn á mér fraus. Ég er ekki að grínast.

Ég þurfti að liggja þarna inni í tíu mínútur til þess að þíða liminn, andskotinn hafi það,“ sagði hann í samtali við sænska miðilinn Expressen og benti á hitatjald þar sem keppendur fara eftir keppni til þess að endurheimta hita í líkamann.

„Þetta er svo sárt. Þetta er hræðilegt,“ bætti Halfvarsson við.

Sem betur fer búinn að eignast tvö börn

„Það er heppilegt að ég sé búinn að eignast tvö börn því það verður erfitt að eignast fleiri í framtíðinni ef fram heldur sem horfir,“ hélt hann áfram og hló.

Halfvarsson hefur áður lent í því að getnaðarlimur hans frjósi við keppni, sem gerðist einnig í Ruka. Beðinn um að lýsa sársaukanum sagði Halfvarsson:

„Ég get ekki lýst honum. Þeir vita sem vita. Ef ég ætti að ráða þér heilt þá myndi ég halda mig fjarri skíðagöngu því þetta er það versta sem hægt er að upplifa.“

Gerðist aftur hjá Finnanum

Finninn Remi Lindholm hefur sömuleiðis lent í því að kynfæri hans frjósi við keppni. Það gerðist á Vetrarólympíuleikunum í Peking á síðasta ári.

Lindholm greindi frá því í samtali við Expressen að það hafi gerst aftur við keppni í Ruka um liðna helgi.

„Þetta er slæmt,“ sagði Finninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert