Handtökuskipun vegna árásar á ólétta konu

Von Miller fyrir leik með Buffalo Bills á tímabilinu.
Von Miller fyrir leik með Buffalo Bills á tímabilinu. AFP/Rich Barnes

Lögreglan í Dallas í Texas-ríki í Bandaríkjunum hefur gefið út handtökuskipun á hendur Von Miller, leikmanns Buffalo Bills í NFL-deildinni í ruðningi, vegna meintrar árásar á ólétta konu.

Samkvæmt yfirlýsingu frá lögreglunni í Dallas er Miller gefið að sök að hafa átt í rifrildi við konu sem endaði með því að hann réðist á hana.

Þar segir að lögregla hafi verið kölluð til en Miller hafi verið búinn að yfirgefa svæðið þegar hún kom á vettvang.

Meint fórnarlamb hlaut aðhlynningu sjúkraliða á vettvangi vegna smávægilegra áverka og þurfti ekki að fara á sjúkrahús.

Bæði Buffalo Bills og NFL-deildin hafa gefið frá sér yfirlýsingu þar sem segir að félaginu og deildinni sé kunnugt um atvikið.

Buffalo Bills greinir frá því að það sé nú að afla sér upplýsinga og í yfirlýsingu deildarinnar segir að forráðamenn hennar hafi verið í sambandi við félagið.

Annars vill hvorki félagið né NFL-deildin tjá sig frekar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert