Segir Katrínu Tönju næstbesta í heimi

Katrín Tanja Davíðsdóttir.
Katrín Tanja Davíðsdóttir. Ljósmynd/Instagram

Crossfitkonan Katrín Tanja Davíðsdóttir hefur verið í fremstu röð í íþróttinni um langt árabil.

Sjö ár eru liðin síðan Katrín Tanja varð síðast heimsmeistari en þrátt fyrir það hefur hún sýnt mikinn og góðan stöðugleika við keppni á undanförnum árum.

Morning Chalk Up, bandarískur miðill sem fjalla um Crossfit, tekur Katrínu Tönju til umfjöllunar í ítarlegri grein þar sem greinarhöfundurinn Austin Heaton færir rök fyrir því að Katrín Tanja sé næstbesta konan sem hefur iðkað íþróttina undanfarinn áratug.

Katrín Tanja hefur tvisvar sinnum orðið heimsmeistari í Crossfit, árin 2015 og 2016, og tvisvar til viðbótar unnið til verðlauna á heimsleikunum. Hafnaði hún í þriðja sæti árið 2018 og öðru sæti 2020.

Sexfaldur heimsmeistari stendur henni framar

Í greininni segir Heaton aðeins eina konu hafa verið Katrínu Tönju fremri undanfarinn áratug, hina áströlsku Tiu Clair Toomey-Orr.

Hún er sexfaldur heimsmeistari í Crossfit, sem er met, og hafnaði í öðru sæti á báðum heimsleikunum þar sem Katrín Tanja stóð uppi sem heimsmeistari.

Toomey-Orr varð heimsmeistari í sex ár á eftir, á árunum 2017 til 2022, en tók ekki þátt á leikunum í haust eftir að hafa eignast sitt fyrsta barn. Á leikunum í ár hafnaði Katrín Tanja í sjöunda sæti.

Ungverjinn Laura Horvath stóð uppi sem sigurvegari á heimsleikunum í haust og varð þar með aðeins þriðji heimsmeistarinn í tæpan áratug eftir að Katrín Tanja og Toomey-Orr höfðu verið þeir einu á árunum 2015 til 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert