Vorkenni honum mikið að hafa þurft að ganga í gegnum þetta

„Ég fékk öll íþróttagenin á meðan hann fékk listagenin og þetta hentaði held ég ágætlega því að ég fékk minn tíma í sviðsljósinu og svo fékk hann sinn tíma þannig að við vorum í raun aldrei í sviðsljósinu á sama tíma,“ sagði sundkonan fyrrverandi og ólympíufarinn Hrafnhildur Lúthersdóttir í Dagmálum.

Hrafnhildur, sem er 32 ára gömul, lagði sundhettuna mjög óvænt á hilluna í ársbyrjun 2018, þá 27 ára gömul, en ein af ástæðum þess að hún ákvað að hætta var skortur á fjármagni og lítill stuðningur stjórnvalda við íslenskt afreksíþróttafólk.

Jafnast allt saman út

Yngri bróðir Hrafnhildar er tónlistarmaðurinn Auðunn Lúthersson, betur þekktur sem Auður, en hann hefur verið einn vinsælasti tónlistarmaður landsins undanfarin ár. 

„Þetta var alveg pirrandi fyrir hann því pabbi var til dæmis mikið inni í sundinu þar sem hann var í stjórn Sundsambandsins og hann var mikið að skoða tíma hjá mínum helstu keppinautum,“ sagði Hrafnhildur.

„Mamma var líka vel inn í sundinu og þegar að við töluðum sem mest um sundið við matarborðið þá sá maður vel hversu þreyttur hann var á því. Þegar hann var yngri þá reyndi hann að vekja á sér athygli við matarborðið en í seinni tíð þá bara kláraði hann að borða og fór upp í herbergi til sín.

Ég vorkenni honum alveg mikið að hafa þurft að ganga í gegnum þetta en á sama tíma er mjög mikið talað um hann við matarborðið í dag þannig að þetta jafnast allt saman út,“ sagði Hrafnhildur meðal annars í léttum tón.

Viðtalið við Hrafnhildi í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Systkinin Auðunn Lúthersson og Hrafnhildur Lúthersdóttir.
Systkinin Auðunn Lúthersson og Hrafnhildur Lúthersdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert