Draumurinn um Ólympíuleikana úr sögunni

Andrea Kolbeinsdóttir.
Andrea Kolbeinsdóttir. mbl.is/Hákon Pálsson

„Staðan á mér er mjög góð og ég er loksins búin að ná mér af þessum meiðslum sem hafa verið að hrjá mig,“ sagði hlaupakonan Andrea Kolbeinsdóttir í samtali við Morgunblaðið.

Andrea, sem er 25 ára gömul, hefur verið fremsta langhlaupakona landsins undanfarin ár en hún er ríkjandi Íslandsmeistari í maraþoni og þá hafnaði hún í fjórða sæti í kjörinu á íþróttamanni ársins sem samtök íþróttafréttamanna standa fyrir ár hvert.

Líkurnar aldrei miklar

Andrea ætlaði sér að verða önnur konan til þess að keppa í maraþoni á Ólympíuleikunum í París í sumar en Martha Ernstsdóttir gerði það fyrst kvenna í Sydney árið 2000.

„Líkurnar voru aldrei miklar og það hefði allt þurft að ganga upp hjá mér í Valencia-maraþoninu í desember á Spáni á síðasta ári ef ég ætlaði að eiga einhverja möguleika á sæti á Ólympíuleikunum í París. Það hefði styrkt stöðu mína á heimslistanum en svo auðvitað komst ég ekki í hlaupið vegna meiðsla. Draumurinn um að keppa á Ólympíuleikunum í París er því úr sögunni en á sama tíma horfi ég björtum augum til Ólympíuleikanna 2028 sem fram fara í Los Angeles í Bandaríkjunum.

Ég er skráð til leiks í maraþonið í Valencia í desember á þessu ári og markmiðið þar er að sjálfsögðu að bæta Íslandsmetið í greininni. Ég geri mér samt grein fyrir því að það þarf ýmislegt að ganga upp ef ég ætla mér að keppa á leikunum í Los Angeles eftir fjögur ár en þetta er klárlega eitt af framtíðarmarkmiðunum,“ sagði Andrea.

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert