Ellefu leikmenn skoruðu tólf mörk

Bjarki Jóhannesson, Axel Orongan og Sölvi Atlason skoruðu allir fyrir …
Bjarki Jóhannesson, Axel Orongan og Sölvi Atlason skoruðu allir fyrir SR í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Skautafélag Reykjavíkur sigraði Fjölni, 8:4, í síðasta leiknum á Íslandsmóti karla í íshokkí þegar Reykjavíkurfélögin mættust í Skautahöllinni í Laugardal í kvöld.

Fyrir leikinn var ljóst að SR myndi enda í öðru sæti og mæta Skautafélagi Akureyrar í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn. Staðan var 3:1 fyrir SR eftir fyrsta leikhluta og 5:4 eftir annan hluta.

Ellefu leikmenn skoruðu mörkin tólf í leiknum í kvöld en eftir að tíu höfðu skorað sitt markið hver og staðan var 6:4 batt Alex Orongan lokahnútinn á sigur SR með því að skora tvö síðustu mörkin á lokakafla leiksins.

Auk Axels skoruðu Petr Stepanek, Filip Krzak, Jonathan Otuoma, Kári Arnarsson, Sölvi Atlason og Bjarki Jóhannesson fyrir SR.

Mörk Fjölnis skoruðu þeir Kolbeinn Sveinbjarnarson, Emil Alengaard, Martin Simanek og Andri Helgason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert