Raunhæft markmið að komast á Ólympíuleikana

Erna Sóley Gunnarsdóttir.
Erna Sóley Gunnarsdóttir. mbl.is/Óttar Geirsson

Frjálsíþróttakonan Erna Sóley Gunnarsdóttir úr ÍR tekur þátt á fyrsta stórmóti sínu innanhúss þegar hún keppir á heimsmeistaramótinu í Glasgow í Skotlandi, sem hefst á morgun.

„Ég hef aldrei áður keppt á stórmóti innanhúss. Ég komst inn á EM innanhúss í fyrra en gat ekki tekið þátt því ég keppti á háskólameistaramótinu í Bandaríkjunum á sama tíma,“ sagði Erna í samtali við Morgunblaðið.

Hún er fremsti kúluvarpari landsins og á Íslandsmet bæði innan- og utanhúss. Metið innanhúss er 17,92 metrar og utanhúss er það 17,39 metrar. Eftirvæntingin fyrir HM er mikil og keppir hún strax á morgun.

„Ég er ofboðslega spennt fyrir þessu. Það eru færri sem taka þátt á innanhússmótum, við verðum bara 19 sem keppum en á HM utanhúss eru 34 sem keppa.

Ég er svo sannarlega að fara að keppa við alla bestu kúluvarparana í heiminum og er mjög spennt að spreyta mig gegn þeim,“ sagði Erna.

Hún flýgur til Glasgow í dag og er ánægð með staðsetninguna á mótinu, enda stutt flug frá Keflavík.

Stóra markmiðið að fara á ÓL

Hver eru markmið þín á HM?

„Mig langar í bætingar. Ég veit að ég er með góð köst inni og væri til í að bæta mig. Það væri frábært. En síðan er líka markmiðið að keppa og gera það vel. Þó að ég sé síðust af öllum keppendum inn á þetta mót ætla ég ekkert að vera síðust á því.

Ég ætla að mæta og reyna að vinna nokkrar af þessum stelpum sem eru með þeim bestu í heimi. Það væri alveg frábært,“ sagði hún ákveðin.

Stærsta markmið ársins er hins vegar að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum í París í sumar.

„Það er stóra markmiðið í ár að komast þangað. Ég held að það sé að verða frekar raunhæft markmið,“ sagði Erna.

Viðtalið við Ernu má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert