„Þetta er bara draumur“

SR-ingar fagna Íslandsmeistaratitlinum í leikslok á Akureyri.
SR-ingar fagna Íslandsmeistaratitlinum í leikslok á Akureyri. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Jóhann Björgvin Ragnarsson var í markinu hjá SR í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí og hann stóð heldur betur fyrir sínu.

Markvarsla Jóhanns var einn af lykilþáttunum í sigri SR sem lagði SA að velli í oddaleik liðanna á Akureyri á skírdag, 3:2, þar sem Filip Krzak skoraði sigurmarkið þremur mínútum fyrir leikslok. Reykjavíkurliðið er þar með Íslandsmeistari annað árið í röð.

Áður höfðu Petr Stepanek og Kári Arnarsson skorað fyrir SR og þeir Baltasar Hjálmarsson og Arnar Helgi Kristjánsson fyrir SA.

SA komst í 2:1 í einvíginu en SR jafnaði metin á sínum heimavelli á þriðjudagskvöldið og vann síðan sætan sigur í úrslitarimmunni á Akureyri.

„Ég er búinn að spila tvö ár í Tékklandi, fyrst í þriðju efstu deild og svo næstefstu,“ sagði Jóhann, inntur eftir því hvar hann hefði alið manninn fram til þessa.

Frábært að sjá

„Ég var tvö ár í meistaraflokknum hjá SR áður en ég fór til Tékklands. Þá vorum við ansi daprir og unnum varla leik. Það er því frábært að sjá hverju menn hafa áorkað hjá SR síðan þá. Tveir Íslandsmeistaratitlar í röð. Þetta er bara draumur.“

Það var dálítið lýsandi fyrir úrslitaleikinn að SA sótti mun meira en góðu færin voru kannski álíka mörg hjá liðunum. Þú varðir virkilega vel en vörnin virtist líka vera að spila agað og skipulega.

„Já, þetta var einmitt þannig. Strákarnir voru mjög duglegir að halda þeim fyrir utan og leyfa þeim bara að skjóta þar. Ég á að taka þau skot. Ég fékk mjög mikla hjálp í leiknum. SA fékk einhver dauðafæri. Þau koma alltaf í leikjum. Vörnin var bara frábær hjá okkur en svo vorum við beittir og áræðnir í sóknum okkar.“

Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag

Íslandsbikarinn á lofti í leikslok.
Íslandsbikarinn á lofti í leikslok. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert