Eldurinn var tendraður í morgun

Gríska leikkonan Mary Mina tendrar ólympíueldinn.
Gríska leikkonan Mary Mina tendrar ólympíueldinn. AFP/Aris Messinis

Ólympíueldurinn fyrir leikana sem fram fara í París í sumar var kveiktur í hinni fornu Ólympíu á Grikklandi í morgun.

Þar tók fyrsti hlauparinn við kyndlinum en það var gríski róðrarmeistarinn Stephanos Ntouskos. Eftir stuttan sprett rétti hann Laure Manaudou, þreföldum ólympíumeistara í sundi, kyndilinn en hún var mætt sem fulltrúi Parísarborgar.

Hlaupið verður með kyndilinn til Aþenu, á hinn forna leikvang Panathenaic þar sem fyrstu nútíma Ólympíuleikarnir voru haldnir árið 1896, en í millitíðinni verður hlaupið með hann í ellefu daga víðs vegar um Grikkland.

Frá Aþenu verður eldurinn fluttur með skipinu Belem til Marseille í Frakklandi en þangað á hann að koma 8. maí. Eftir 68 daga hlaup með hann um Frakkland verður hann tendraður í París á upphafsdegi leikanna, 26. júlí.

Stephanos Ntouskos leggur af stað með ólympíueldinn.
Stephanos Ntouskos leggur af stað með ólympíueldinn. AFP/Angelos Tzortzinis
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert