Einn Íslendingur náð lágmarki fyrir Ólympíuleikana

Anton Sveinn McKee.
Anton Sveinn McKee. mbl.is/Kristinn Magnússon

​Aðeins einn Íslendingur hefur náð lágmarki í sinni íþróttagrein fyrir Ólympíuleikana 2024 sem fram fara í París í sumar.

Leikarnir hefjast 26. júlí og þeim lýkur svo hinn 11. ágúst en í janúar á þessu ári tilkynnti Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands ólympíuhóp ÍSÍ.

Ólympíuhópurinn er skipaður afreksíþróttafólki sem hefur nú þegar tryggt sér þátttökurétt eða er líklegt til þess að tryggja sér þátttökurétt á þeim að því er fram kemur á heimasíðu ÍSÍ.

Upphaflega voru níu íþróttamenn í hópnum, sem og íslenska karlalandsliðið í handknattleik, en landsliðið missti naumlega af sæti í undankeppni Ólympíuleikanna á Evrópumótinu 2024 í Þýskalandi. Í apríl var þeim svo fjölgað úr níu í þrettán þegar fjórir íþróttamenn bættust við hópinn.

Sóttu um sex boðssæti

Íslandi stóð til boða að sækja um svokölluð boðssæti á leikunum í ár. Ísland hefur ekki átt fleiri en átta keppendur að meðaltali á síðustu tveimur Ólympíuleikum, 2021 í Tókýó og 2016 í Ríó, en alls eru 104 boðssæti í boði á leikunum í ár, í 21 íþróttagrein.

Hver þjóð, sem hafði kost á því að sækja um boðssæti, gat sótt um fyrir sex íþróttamenn og sótti Ísland um boðssæti fyrir Eygló Fanndal, Guðlaugu Eddu, Hákon Þór, Ingibjörgu Erlu, Svönu og Valgarð eins og áður hefur komið fram.

Hugmyndin á bak við boðssætin á Ólympíuleikunum er fyrst og fremst að auka fjölbreytni á leikunum og gefa smærri þjóðum tækifæri til þess að fjölga keppnisfólki sínu.

Umfjöllun um íþróttafólkið sem er að berjast um sæti á Ólympíuleikunum í París í sumar má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert