Stór dagur sem ég hef beðið lengi

Caster Semenya ræðir við fréttamenn í Strasbourg í Frakklandi í …
Caster Semenya ræðir við fréttamenn í Strasbourg í Frakklandi í dag. AFP/Frederick Florin

Suðurafríska hlaupakonan Caster Semenya segir að áheyrn hennar hjá Mannréttindadómstóli Evrópu í dag hafi markað tímamót í langri baráttu sinni fyrir réttindum.

Í júlí á síðasta ári úrskurðaði Mannréttindadómstóllinn að Alþjóða íþróttadómstóllinn, CAS, hefði brotið á réttindum hennar með úrskurði um að hún þyrfti að minnka testósterón í líkama sínum til að mega keppa í frjálsíþróttum.

Í dag fékk Semenya áheyrn hjá dómstólnum í Strasbourg í Frakklandi þar sem dómararnir hlýddu á málflutning hennar en þeir munu í framhaldi af því kveða upp endanlegan úrskurð.

„Þetta er stór dagur fyrir mig sem manneskju og íþróttamann, og ég hef beðið hans lengi," sagði Semenya, sem varð Ólympíumeistari í 800 metra hlaupi kvenna árin 2012 og 2016 og heimsmeistari árin 2009, 2011 og 2017.

„Árið 2009 stóð ég á efsta þrepi verðlaunapallsins á heimsmeistaramótinu í Berlín, nýkomin úr kynjaprófi og vissi að allur heimurinn horfði á líkama minn og efaðist um kyn mitt. Á þeim fimmtán árum sem síðan eru liðin hef ég haldið reisn minni þrátt fyrir mikið mótlæti. Þetta mótlæti hefur gert mig að sönnum meistara og auðmjúkri móður, eiginkonu, systur og dóttur," sagði hin 32 ára gamla Semenya, sem er gift fyrrverandi frjálsíþróttakonunni Violet Raseboya og þær eiga saman tvær dætur.

„Ég vona að niðurstaða dómstólsins muni leiða til þess að mannréttindi alls íþróttafólks verði tryggð í eitt skipti fyrir öll, og allar ungar konur geti verið sáttar við sjálfar sig í öllum sínum fjölbreytileika," sagði Semenya við AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert