hér. ">

Ragnhildur fór holu í höggi á par 4 braut

Ragnhildur Sigurðardóttir.
Ragnhildur Sigurðardóttir. mbl.is/ÞÖK

Ragnhildur Sigurðardóttir, Íslandsmeistari í höggleik, gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á 6. braut Garðavallar á Akranesi í dag. Þetta er merkilegt afrek hjá Ragnhildi þar sem brautin er par 4. Dýkið, eins og 6. brautin er kölluð, liggur í sveig til hægri frá teig og að flöt og þurfa kylfingar að slá yfir vatn sem liggur meðfram brautinni hægra megin. Á vinstri hlið brautarinnar er hátt klettabelti og er flötin því erfið viðureignar. Ragnhildur er sú fyrsta sem fer holu í höggi á 6. braut Garðavallar en brautin er um 213 metrar að lengd af bláum teigum.

Hægt er að skoða myndband af "Dýkinu" með því að smella hér.

„Ég var með dræverinn og miðaði bara á flötina, Höggið var beint og boltinn hoppaði einu sinni áður en hann hvarf. Rósa Guðmundsdóttir vinkona mín var með mér og við vissum ekki hvort við ættum að fagna þar sem að flötin er langt í burtu. Þegar ég kom að flötinni þá datt mér í hug að boltinn hefði rúllað yfir flötina en það var gaman að sjá boltann ofaní holunni,“ sagði Ragnhildur en hún var að leika æfingahring fyrir Ostamótið sem hefst á morgun á Garðavelli en það er fyrsta stigamót ársins á KB banka mótaröðinni. Þetta er í annað sinn sem Ragnhildur fer holu í höggi.

„Ég hef notað trékylfu í bæði skiptin, en ég fór holu í höggi á móti í Grafarholti fyrir 15 árum síðan og þar notaði ég 4-tré á 11. braut enda var mikill mótvindur. Þetta er ekki hefðbundin aðferð að slá holu í höggi með trékylfu en ég á þá bara hitt eftir,“ bætti Ragnhildur við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert