Cantlay sigraði á Memorial

Patrick Cantlay á lokahringnum í gær.
Patrick Cantlay á lokahringnum í gær. AFP

Patrick Cantlay sigraði á Memorial-mótinu í PGA-mótaröðinni í golfi í gærkvöldi og tryggði sér sigur með frábærum lokahring þar sem hann skilaði inn skori upp á 64 högg. Tiger Woods lék einnig virkilega vel á lokahringnum. 

Cantlay lék alla fjóra hringina undir 70 höggum og var samtals á 19 undir pari vallarins. Er þetta annar sigur Cantlay í mótaröðinni á ferlinum en hann hefur leikið vel á þessu ári og margir höfðu spáð því að hann myndi landa sigri á þessu ári. 

Saga Cantley er nokkuð sérstök en hann var sérlega efnilegur í háskólagolfinu og náði að spila á 60 höggum á Travellers-mótinu árið 2011 þegar hann var enn atvinnumaður. Hann glímdi við bakmeiðsli í þrjú ár og hvarf af sjónarsviðinu um tíma. 

Nokkrir reyndir kylfingar þurftu að játa sig sigraða þrátt fyrir að leika mjög vel en þeir Adam Scott, Martin Kaymer og Jordan Spieth voru allir í baráttu um sigurinn. Mótið var viss upprisa fyrir Kaymer en fimm ár eru síðan hann vann mót í PGA-mótaröðinni. 

Tiger Woods var mjög beittur á lokahringnum og lék á 67 höggum en um tíma var hann á sjö undir pari á hringnum. Hann lauk keppni á samtals 9 höggum undir pari og hafnaði í 9. sæti. Virðist hann til alls líklegur á Opna bandaríska meistaramótinu sem verður um miðjan mánuðinn á velli þar sem kappinn kann vel við sig: Pebble Beach. 

Memorial-mótið er gjarnan sterkt og þar spilar inn í að gestgjafi mótsins er sjálfur Jack Nicklaus sem fær stjörnurnar til að mæta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert