PGA og LIV sameinast

Brooks Koepka er einn þeirra kylfinga sem skiptu yfir til …
Brooks Koepka er einn þeirra kylfinga sem skiptu yfir til LIV-mótaraðarinnar síðasta sumar. AFP/Rob Carr

Forsvarsmenn PGA-mótaraðarinnar í golfi hafa tekið ákvörðun um að sameinast hinni umdeildu LIV-mótaröð.

LIV-mótaröðin er fjár­mögnuð af sádi-ar­ab­íska rík­inu og frá því að hún var sett á laggirnar hefur andað köldu milli forsvarsmanna mótaraðanna tveggja.

PGA hafði til að mynda meinað öllum kylfingum, sem ákváðu að þekkjast boð LIV um að taka þátt í mótum á vegum mótaraðarinnar, um þátttöku á mótum PGA.

Mótaraðirnar tvær hafa staðið í málaferlum, þar sem flest málin lúta að samkeppnismálum, allar götur síðan.

Nýr samningur, sem PGA og LIV, hafa undirritað bindur enda á öll málaferli og munu mótaraðirnar koma sér saman um nýtt heiti á sameiginlegu fyrirtæki.

Að loknu yfirstandandi tímabili geta svo allir kylfingar sem hafa skipt yfir til LIV og verið meinað að taka frekari þátt í mótum á vegum PGA sótt um aðild að síðarnefndu mótaröðinni að nýju.

Þessar breytingar ná einnig til Evrópumótaraðarinnar (e. DP World Tour), þar sem íslenski atvinnukylfingurinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson er með keppnisrétt á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka