LIV landar Masters meistaranum

Jon Rahm í græna jakkanum fræga sem hann fékk fyrir …
Jon Rahm í græna jakkanum fræga sem hann fékk fyrir sigurinn á Masters. AFP

LIV mótaröðin í golfi landaði stórlaxi í kvöld þegar tilkynnt var að Spánverjinn Jon Rahm hafi samið um að spila á mótaröðinni. 

Undanfarið hafði verið orðrómur um að Rahm væri í viðræðum við forráðamenn LIV og reyndist sá orðrómur á rökum reistur. 

Jon Rahm sigraði á Masters í fyrra og á Opna bandaríska meistaramótinu árið 2021. Rahm er í 3. sæti heimslistans en var um tíma í efsta sæti listans. 

Segja má að hann sé sterkasti kylfingurinn sem LIV hefur nælt í en Rahm er á besta aldri eða 29 ára. En hjá LIV má þó finna kylfinga sem eru ekki síður frægir eins og Dustin Johnson, Brooks Koepka, Bryson DeChambeau, Cameron Smith, Sergio Garcia, Phil Mickelson og fleiri.

Hvíta hákarlinum Greg Norman hefur heldur betur tekist að hrista …
Hvíta hákarlinum Greg Norman hefur heldur betur tekist að hrista upp í golfheiminum sem stjórnarformaður LIV. AFP/Hawkins

„Ég er stoltur af því að ganga til liðs við LIV Golf og vera þar með hluti af einhverju nýju sem stuðlar að aukinni útbreiðslu íþróttarinnar. Ég er ekki í vafa um að þetta er frábært tækifæri fyrir mig og mína fjölskyldu og hlakka mjög til komandi tíma,“ er haft eftir Rahm í fréttatilkynningu frá LIV en keppni á mótaröðinni hefst í byrjun febrúar í Mexíkó. 

Rahm hefur ellefu sinnum unnið á PGA-mótaröðinni og tíu sinnum á Evrópumótaröðinni. Hann er einn fárra sem farið hafa frá PGA-mótaröðinni yfir á LIV og er enn í yngri kantinum ef svo má segja. Hinir eru Cameron Smith og Bryson DeChambeau. Aðrir eru farnir að eldast eins og Johnson, Mickelson, Garcia, Lee Westwood og Ian Poulter. Þeir hafa meðal annars heillast af því að komast á mótaröð þar sem álagið er minna. Leiknar eru 54 holur en ekki 72 og gerð er krafa um færri mót á ári. Að minnsta kosti enn sem komið er. 

Vistaskipti Jons Rahm eru mikil tíðindi enda hefur hann verið einn besti kylfingur heims undanfarin ár ásamt þeim Rory McIlroy og Scottie Scheffler sem báðir leika á PGA-mótaröðinni. Rahm er í hópi frægustu íþróttamanna Spánverja núna en er raunar Baski og kemur frá litlum bæ, Barrica, ekki ýkja langt frá Bilbao. 

Rory McIlroy og Tiger Woods höfnuðu báðir tilboðum frá LIV …
Rory McIlroy og Tiger Woods höfnuðu báðir tilboðum frá LIV og hafa hvatt kylfinga til að leika áfram á PGA-mótaröðinni og Evrópumótaröðinni. Hér eru þeir ásamt gamla brýninu Fred Couples á æfingahring fyrir Masters í apríl. AFP/Christian Petersen

PGA-mótaröðin skartar enn stórum stjörnum en innkoma LIV hefur þó valdið miklum titringi eins og frægt er. 

Fyrr á árinu bárust af því fréttir að forráðamenn mótaraðanna hefðu sest að samningaborðinu en lítið hefur frést af því í langan tíma. Golfunnendur vilja sjá bestu kylfinga heims á risamótunum og í keppninni um Ryder-bikarinn en þar sem kylfingar fá ekki stig á heimslista á mótum LIV eru dæmi um að heimsklassa kylfingar hafi misst keppnisrétt á risamótunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert