Tveir jafnir og efstir fyrir lokahringinn

Collin Morikawa og Xander Schauffele takast í hendur á síðustu …
Collin Morikawa og Xander Schauffele takast í hendur á síðustu flötinni á Valhalla í kvöld. AFP/Andrew Redington

Bandaríkjamennirnir Xander Schauffele og Collin Morikawa eru jafnir og efstir eftir þriðja hringinn á PGA-meistaramótinu í golfi sem stendur yfir á Valhalla-vellinum í Kentucky í Bandaríkjunum.

Morikawa lék á 67 höggum í dag og jafnaði við Schauffele sem lék á 68 höggum, þannig að þeir hefja báðir lokahringinn á morgun með 15 högg undir pari.

Baráttan er tvísýn því Sahith Theegala frá Bandaríkjunum er á hælum þeirra á 14 undir pari og síðan koma jafnir þeir Shane Lowry frá Írlandi, Bryson DeChambeau frá Bandaríkjunum og Viktor Hovland frá Noregi, allir á 13 höggum undir pari.

Lowry jafnaði vallarmetið í kvöld þegar hann lék hringinn á 62 höggum.

Scottie Scheffler frá Bandaríkjunum, efsti maður heimslistans, lék á 73 höggum í dag og datt niður í 24. sæti á sjö höggum undir pari, þannig að ólíklegt er að hann blandi sér í toppbaráttuna á lokahringnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert