Ísland í 12. sæti eftir sigur Brasilíu

Íslenska landsliðið endar í 12. sæti á HM.
Íslenska landsliðið endar í 12. sæti á HM. mbl.is/Egill Örn Þórarinsson

Ísland hafnaði í 12. sætinu á HM kvenna í handknattleik en það var endanlega staðfest fyrir nokkrum mínútum þegar Brasilía vann Fílabeinsströndina, 35:22, í síðasta leiknum í 16-liða úrslitum keppninnar.

Fyrir leiki kvöldsins hefði Ísland getað sigið niður í 15. sætið, en til þess hefðu Fílabeinsströndin, Japan og Rúmenía þurft að sigra mótherja sína í 16-liða úrslitunum. Þau töpuðu öll að lokum og enda þar með öll fyrir neðan Ísland. Annars hefðu Brasilía, Danmörk og Króatía setið eftir, öll með betri árangur en Ísland og hvert þeirra um sig hefði því verið ofar í töflunni.

Minnstu munaði hjá Dönum sem þurftu framlengingu til að knýja fram sigur á Japan, 23:22. Króatar sluppu líka fyrir horn með því að sigra Rúmena, 28:27. Frakkar unnu Svía fyrr í kvöld, 26:23.

Úrslit um neðri sætin réðust líka í kvöld. Þýskaland vann Túnis 33:25 í leik um 17. sætið, Kasakstan vann Úrúgvæ 31:22 í leik um 19. sætið, Kína vann Kúbu 30:29 í leik um 21. sætið og Argentína vann Ástralíu 30:12 í leik um 23. sætið.

Þar með liggur röð liðanna í 9.-24. sæti keppninnar endanlega fyrir og hún er þannig:

  9. Svíþjóð
10. Svartfjallaland
11. Suður-Kórea
12. Ísland
13. Rúmenía
14. Japan
15. Holland
16. Fílabeinsströndin
17. Þýskaland
18. Túnis
19. Kasakstan
20. Úrúgvæ
21. Kína
22. Kúba
23. Argentína
24. Ástralía

Í 8-liða úrslitum mætast:

Rússland - Frakkland
Danmörk - Angóla
Brasilía - Spánn
Króatía - Noregur

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka