Yrði stór áfangi í sögu félagsins

Tandri Már Konráðsson.
Tandri Már Konráðsson. Ljósmynd/heimasíða Skjern

„Ef við komumst í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar verður það vafalítið einn stærsti áfangi í sögu félagsins síðan Skjern varð danskur meistari í kringum aldamótin,“ sagði Tandri Már Konráðsson, handknattleiksmaður hjá danska handknattleiksliðinu Skjern, í samtali við Morgunblaðið í gær spurður um síðari leikinn við HC Motor Zaporozhye frá Úkraínu á sunnudaginn.

Leikurinn er liður í uppgjöri á milli liðanna í C- og D-riðlum Meistaradeildarinnar þar sem fjögur lið kljást um tvö sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Skjern sótti HC Motor Zaporozhye heim á síðasta laugardag og tapaði með tveggja marka mun, 32:30. „Það var við ramman reip að draga. Zaporozhye hefur ekki tapað heimaleik árum saman auk þess sem dómgæslan var ekki okkur hliðholl,“ sagði Tandri. „En við eigum möguleika á að snúa taflinu við á heimavelli. Eftir að hafa skorað 30 mörk á útivelli þá tel ég okkur eiga ákveðna möguleika í stöðunni ef okkur tekst að halda aftur af sóknarleik þeirra. Því er hins vegar ekki að leyna að Zaporozhye hefur á að skipa harðsnúnu liði,“ sagði Tandri.

Skjern er í efsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar þegar fimm umferðir eru eftir. Mikill meðbyr er með liðinu og það hefur sterkan heimavöll þar sem áhorfendur standa þétt að baki liðinu.

Skjern var í C-riðli Meistaradeildarinnar með Ademar Léon frá Spáni, Gorenje Velenje frá Slóveníu, norsku meisturunum í Elverum, Kadetten Schaffhausen frá Sviss og rúmensku meisturunum í Dinamo Búkarest. Skjern vann alla fimm heimaleiki sína í riðlakeppninni.

„Það er mikill áhugi fyrir leiknum við Zaporozhye eins og öðrum heimaleikjum okkar. Uppselt er á leikinn á sunnudaginn fyrir nokkru síðan og við erum spenntir fyrir að takast á við þetta verkefni og freista þess að komast í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar,“ sagði Tandri Már Konráðsson, handknattleiksmaður hjá Skjern.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert