Segist ekki hafa nýtt tækifærið

Ragnar í leiknum gegn Norðmönnum á mótinu í Noregi.
Ragnar í leiknum gegn Norðmönnum á mótinu í Noregi. Ljósmynd/Einar Kvalheim

„Ég hef ekki beðið lengi eftir tækifæri til að spreyta mig með landsliðinu, kannski síðasta árið eða svo,“ sagði handknattleiksmaðurinn Ragnar Jóhannsson í samtali við Morgunblaðið, spurður hvort hann hefði lengi beðið eftir tækifæri til að leika með landsliðinu í handknattleik.

Ragnar er 27 ára gamall. Honum skaut fram á sjónarsviðið ungum með Selfossliðinu og m.a. varð hann markakóngur efstu deildar leiktíðina 2010/2011. Síðar lék Ragnar með FH um nokkurt skeið áður en hann gekk óvænt til liðs við þýska liðið Hüttenberg í ársbyrjun 2015. „Það er svo langt síðan ég varð markakóngur deildarinnar. Á þeim tíma voru frábærir leikmenn í landsliðinu og ekki heiglum hent að slá þeim við,“ sagði Ragnar sem lék sína fyrstu leiki fyrir íslenska landsliðið á fjögurra liða mótinu í Noregi um nýliðna helgi.

Ragnar tók þátt í æfingum með landsliðinu í tvígang meðan Geir Sveinsson var við stjórnvölinn frá 2016 og til loka janúar sl. „Ég hef tvisvar verið í æfingahóp. En það var ekki fyrr en ég fór út til Þýskalands að spila sem ég fór að renna augum til landsliðsins,“ sagði Ragnar sem fékk talsvert að spreyta sig í leikjunum við Norðmenn, Dani og Frakka á Noregsmótinu. „Umhverfið í kringum landsliðið er annað en ég þekki frá félagsliðum. Þess vegna hefur síðasta vika verið mikill lærdómur fyrir mig og gott að æfa undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar,“ sagði Ragnar.

Ósáttur við frammistöðuna

Hann er óánægður með frammistöðu sína og dró ekkert undan þegar Morgunblaðið innti hann eftir þeirri reynslu sem hann hafði öðlast. „Ég er ósáttur við frammistöðu mína í leikjum mótsins. Mér tókst ekki að sýna mínar réttu hliðar, finnst mér. Ég vonaðist eftir að geta gert betur en raun varð á, sérstaklega í sóknarleiknum. Vonandi fæ ég annað tækifæri hjá Guðmundi til þess að sýna hvað raunverulega í mér býr. Það getur verið að stress eða spenna hafi spilað inn í. Ég get hinsvegar ekki notað það sem afsökun. Þegar maður er að leika fyrir landsliðið verður maður að gera betur enda er ég að leika með liði í efstu deild í Þýskalandi þar sem miklar kröfur eru gerðar til leikmanna,“ sagði Ragnar og bætir við.

Sjá allt viðtalið við Ragnar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert