Ætlaði á engum tímapunkti að meiða hann

Gísli Þor­geir Kristjáns­son, leikmaður FH, t.v. meidd­ist illa á höfði …
Gísli Þor­geir Kristjáns­son, leikmaður FH, t.v. meidd­ist illa á höfði og á öxl eft­ir að Andri Heim­ir Friðriks­son lenti á hon­um snemma leiks í gær­kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég vil taka það skýrt fram að ég ætlaði á engum tímapunkti að meiða hann,“ sagði Andri Heimir Friðriksson, leikmaður ÍBV, í samtali við mbl.is í dag en atvik sem átti sér stað um miðjan fyrri hálfleik í þriðja úrslitaleik ÍBV og FH í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn í úrvalsdeild karla í handknattleik í Eyjum í gærkvöld setti leiðinlegan svip á leikinn.

FH-ingurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson fékk þungt höfuðhögg þegar hann skall í gólfinu eftir brot Andra Heimis og kom ekkert meira við sögu í leiknum eftir það. Óvissa ríkir með þátttöku hans í fjórða úrslitaleiknum í Kaplakrika á morgun en auk höfuðhöggsins varð Gísli fyrir meiðslum á öxl. Andri Heimir fékk tveggja mínútna brottvísun fyrir brot sitt en flestir eru sammála um að hann hefði átt að fá rautt spjald.

„Ég er mjög leiður yfir því að hann meiddist að því er virðist illa. Gísli er að fara í stór verkefni á næstu misserum og ég vona innilega að þetta muni ekki trufla það. Ég vona svo sannarlega að ég sjái hann í búningnum á morgun,“ sagði Andri Heimir við mbl.is.

ÍBV er 2:1 yfir í einvíginu og með sigri á morgun tryggja Eyjamenn sér Íslandmeistaratitilinn. Takist FH-ingum að vinna sigur mætast liðin í oddaleik í Eyjum á þriðjudaginn.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert