Alexander og Guðjón Valur fóru á kostum

Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson gleðjast eftir sigur Löwen …
Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson gleðjast eftir sigur Löwen í Meistarakeppninni í Þýskalandi þriðja árið í röð.

Það voru fjölmargir Íslendingar í eldlínunni í Meistaradeild Evrópu í handknattleik í dag. Aron Pálmarsson mætti meðal annars sínu gamla liði Veszprém í fyrsta sinn síðan hann gekk í raðir Barcelona í fyrra.

Aron skoraði þrjú mörk þegar Börsungar unnu Veszprém í A-riðli á heimavelli sínum, 31:28, eftir að hafa verið yfir í hálfleik 17:14. Barcelona var að vinna sinn fyrsta leik í riðlinum eftir að hafa tapað fyrir Rhein-Neckar Löwen í fyrstu umferð.

Og talandi um Rhein-Neckar Löwen þá fóru Íslendingarnir í liðinu á kostum þegar liðið mátti sætta sig við tap fyrir Kielce í Póllandi, 35:32. Alexander Petersson skoraði sjö mörk fyrir Löwen og Guðjón Valur Sigurðsson skoraði fimm mörk, en staðan var jöfn 17:17 í hálfleik. Löwen er með tvö stig í riðlinum.

Þriðja Íslendingaliðið í A-riðli var einnig í eldlínunni en Kristianstad frá Svíþjóð tapaði þá fyrir Vardar frá Makedóníu, 33:25. Ólafur Guðmundsson, fyrirliði Kristianstad, var að spila sinn fyrsta leik á tímabilinu og hann skoraði þrjú mörk í leiknum. Arnar Freyr Arnarsson skoraði eitt mark en Teitur Örn Einarsson skoraði ekki. Kristianstad er án stiga í riðlinum eftir tvo leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka