Toppuðum á réttum tíma

Morgan Marie Þorkelsdóttir átti frábæra innkomu í liði Vals í …
Morgan Marie Þorkelsdóttir átti frábæra innkomu í liði Vals í dag og skoraði fjögur mörk. mbl.is/Eggert

„Þetta er draumur að rætast og við hefðum ekki getað beðið um neitt meira í dag,“ sagði Morgan Marie Þorkelsdóttir, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 25:21-sigur liðsins gegn Fram í þriðja leik liðanna í úrslitum Íslandsmóts kvenna í handknattleik á Hlíðarenda í dag. Valur vann viðureignina, samanlagt 3:0, og er því Íslandsmeistari 2019.

„Þetta er framar okkar björtustu vonum og við áttum ekki von á því, þegar tímabilið hófst, að við myndum standa uppi sem sigurvegarar Íslandsmótsins. Markmiðið var fyrst og fremst að enda í topp fjórum og gera okkar besta í hverjum einasta leik. Við byrjum mótið ekkert frábærlega en við erum að toppa á hárréttum tíma.“

Morgan Marie átti frábæra innkomu í Valsliðinu og skoraði mikilvæg mörk á lokamínútum leiksins en hún skoraði fjögur mörk í dag og var markahæst í Valsliðinu, ásamt Söndru Erlingsdóttur og Lovísu Thompson.

„Ég átti allt eins von á því að þetta yrði síðasti leikur tímabilsins og ég var staðráðin í að gefa allt í þetta. Ég er búin að vera tæp í bakinu en mig langaði virkilega að gera allt sem ég gat til þess að hjálpa liðinu í dag og skila mínu,“ sagði Morgan Marie í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert