Verulega brugðið eftir að þjálfari ÍBV ýtti henni

Britney Cots stendur vörn.
Britney Cots stendur vörn. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Britney Cots, leikmanni FH og landsliðskonu Senegal í handbolta, var verulega brugðið þegar Sigurður Bragason þjálfari ÍBV ýtti henni inni á vellinum er liðin mættust í Olísdeildinni 30. janúar síðastliðinn.

Cots er einnig ósátt við það sem hún telur ósanngjarna meðferð frá dómurum, sérstaklega eftir atvik sem átti sér stað í leik FH og Fram þegar landsliðskonan Steinunn Björnsdóttir meiddist illa.

„Í leiknum gegn Fram slasast Steinunn þegar ég skaut að marki. Þetta var algjört slys og getur komið fyrir. Það skapaðist mikil umræða um þetta sem er skiljanlegt því þetta var áfall fyrir alla að sjá hana slasast svona. Þetta var óþægileg staða, en eitthvað sem getur gerst í handbolta. Mér leið mjög illa yfir þessu atviki,“ sagði Cots við mbl.is. Steinunn blindaðist tímabundið á öðru auga eftir áreksturinn en er á batavegi.  

Britney Cots skýtur að marki Fram í leik með FH.
Britney Cots skýtur að marki Fram í leik með FH. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

„Strax í næsta leik á móti ÍBV verður smá árekstur á milli mín og leikmanns ÍBV [Hörpu Valeyjar Gylfadóttur]. Hún lendir illa, leikurinn er stöðvaður og hún fær aðhlynningu. Það leit út fyrir að ég hafi farið í andlitið á henni en ef horft er á atvikið aftur sést að ég snerti ekki á henni andlitið. Hún lá samt eftir og þjálfarinn [Sigurður Bragason] kíkir á hana. Þegar hann er að fara af vellinum ýtir hann í mig og fer.

Ýtti mér harkalega í burtu

Ég ætlaði að biðja hana afsökunar, en þjálfarinn brást svona við. Ég var í sjokki eftir þetta atvik því þetta á ekki að gerast. Hann ýtti mér harkalega í burtu og vildi ekki sjá mig. Ég var í áfalli en mér fannst réttast að halda áfram að spila því þetta var hörkuleikur. Þess vegna brást ég ekki verr við þessu. Mér sýndist líka dómararnir sjá atvikið, en þeir gerðu ekkert í því,“ sagði Cots og hélt áfram.

Sigurður Bragason er þjálfari ÍBV.
Sigurður Bragason er þjálfari ÍBV. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Þegar ég kom heim eftir leikinn horfði ég aftur á atvikið og ég hugsaði mikið um það sem hafði gerst. Fyrir mér er völlurinn staður sem þér á að líða vel á, en í þarna leið mér ekki vel og mér fannst ég óörugg. Eina sem ég bið um er virðing frá öllum svo við getum spilað eins vel og mögulega hægt er. Það hefði allt orðið vitlaust ef þetta hefði gerst í karlaleik. Ég hefði getað brugðist allt öðruvísi við þessu en ég vildi halda áfram að spila og hjálpa liðinu. Ég vil tala um þetta því enginn leikmaður á að lenda í þessu, sérstaklega ekki ungar stelpur,“ sagði hún.

Fær ósanngjarna meðferð frá dómurum

„Ég ræddi við FH og stjórnin setti sig í samband við HSÍ en við höfum ekki fengið nein svör, núna tæpum tveimur vikum síðar,“ sagði Cots. Hún segir dómara hafa komið öðruvísi fram við sig eftir atvikið með Steinunni.

„Já, mér finnst það. Í einu atviki var ég tekin úr umferð og svo var brotið augljóslega á mér og ekkert var dæmt, svo strax í kjölfarið í hraðaupphlaupi fékk ég dæmdar tvær mínútur á mig þegar ég var ekki nálægt neinum. Dómarinn ætlaði að gefa liðsfélaga mínum tvær, en hætti við og gaf mér tvær. Mér fannst það mjög skrítið, dónalegt og ósanngjarnt. Það var líka mjög skrítið að sjá dómarana ekki taka á því þegar þjálfarinn ýtti mér.“

Britney Cots lendir á Steinunni Björnsdóttur með þeim afleiðingum að …
Britney Cots lendir á Steinunni Björnsdóttur með þeim afleiðingum að sú síðarnefnda meiðist. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Hún útilokar ekki að það komi málinu við að hún sé útlendingur í deildinni á meðan Steinunn er íslensk landsliðskona. „Það er erfitt að segja. Það á ekki að skipta máli hver á í hlut, en auðvitað var fólk í áfalli að sjá Steinunni svona slasaða, hún er risastórt nafn í íslenskum handbolta. Kannski hefur það eitthvað með það að gera að ég sé útlendingur og hún svona stórt nafn, ég veit það ekki,“ sagði Cots, sem annars kann vel við Ísland, en hún viðurkennir að endurtekin atvik inn á vellinum séu þreytandi.

Steinunn verið virkilega góð og almennileg

„Mér líður mjög vel á Íslandi og ég er búin að vinna á sama stað síðan ég kom hingað fyrst, en inni á vellinum hefur þetta stundum verið skrítið. Í fyrra fékk ég t.d. rautt spjald í sókn þegar ég gerði ekki neitt. Það hafa verið hlutir hér og þar sem hafa verið mjög skrítnir. Jakob Lárusson, sem var þjálfarinn okkar í byrjun tímabilsins, reyndi að vekja athygli á þessu. Hann var sammála því að ég fékk ósanngjarna meðferð frá dómurunum,“ sagði Cots.

Að lokum vildi hún hrósa Steinunni Björnsdóttur fyrir hennar viðbrögð við atvikinu þeirra á milli. „Hún hefur verið virkilega góð og almennileg. Við höfum talað reglulega saman eftir þetta og hún tók þessu rosalega vel,“ sagði Britney Cots.

Atvikið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan en það gerist eftir um það bil eftir klukkutíma og fjórar mínútur í myndbandinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert