Berst fyrir lífi sínu eftir hjartastopp

Alfredo Quintana varði mark Portúgals í leikjunum þremur gegn Íslandi …
Alfredo Quintana varði mark Portúgals í leikjunum þremur gegn Íslandi í janúar. AFP

Alfredo Quintana, landsliðsmarkvörður Portúgals í handknattleik, fékk hjartastopp á æfingu með félagsliði sínu Porto í Portúgal í gær.

Quintana hneig niður á æfingunni og var fluttur á Sao Joao-sjúkrahúsið í Porto þar sem hann berst nú fyrir lífi sínu. 

Quintana, sem er 32 ára gamall, er einn af lykilmönnum portúgalska landsliðsins en hann gerði Íslendingum erfitt um vik í þremur leikjum liðanna í janúar, í undankeppni EM sem og á HM í Egyptalandi.

Markvörðurinn fæddist á Kúbu en hefur búið í Portúgal síðustu ár. Hann lék sinn fyrsta landsleik fyrir Portúgal árið 2014 en hann hefur sex sinnum orðið Portúgalsmeistari með Porto.

„Hugur okkar hjá EHF er hjá Alfredo Qintana, fjölskyldu hans og Porto,“ segir í tilkynningu sem Alþjóðahandknattleikssambandið sendi frá sér í morgun.

„Markvörðurinn fékk hjartastopp á æfingu í gær og við vonumst til þess að sjá hann aftur sem fyrst á handknattleiksvellinum.

Haltu áfram að berjast!“ segir enn fremur í tilkynningu EHF.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert