Íslandsmeistarar í 23. sinn

Framarar fagna Íslandsmeistaratitilinum ásamt stuðningsmönnum sínum.
Framarar fagna Íslandsmeistaratitilinum ásamt stuðningsmönnum sínum. mbl.is/Óttar Geirsson

Fram er Íslandsmeistari kvenna í handknattleik eftir dramatískan sigur gegn Val í frábærum fjórða leik liðanna í úrslitum Íslandsmótsins í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld.

Leiknum lauk með 23:22-sigri Fram sem vann einvígið samanlagt 3:1 en Karen Knútsdóttir fór á kostum í liði Fram og skoraði 9 mörk.

Leikurinn fór fjörlega af stað þó báðum liðum hafi gengið illa að skora á upphafsmínútnum.

Hildigunnur Einarsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins þegar tæpar þrjár mínútur voru liðnar af leiktímanum en Karen Knútsdóttir jafnaði metin fyrir Fram tveimur mínútum síðar.

Liðin skiptust á að skora en Framarar voru þó með yfirhöndina framan af.

Kristrún Steinþórsdóttir kom Fram yfir, 11:9, þegar rúm mínúta var eftir af fyrri hálfleik en Lovísa Thompson minnkaði muninn fyrir Val og Framarar leiddu því með einu marki í hálfleik, 11:10.

Framarar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og Karen Knútsdóttir skoraði fyrsta mark síðari hálfleiks af vítalínunni.

Sóknarleikur Valskvenna gekk illa og á sama tíma stíóð Hafdís Renötudóttir vaktina vel í marki Framara.

Steinunn Björnsdóttir kom Fram fjórum mörkum yfir, 16:12, þegar átta mínútur voru liðnar af síðari hálfleik með laglegu marki af línunni.

Framarar héldu áfram að auka forskot sitt og Kristrún Steinþórsdóttir kom Frömuru fimm mörkum yfir þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka.

Stella Sigurðardóttir fékk að líta beint rautt spjald fyrir brot á Theu Imani Stuludóttur á 42. mínútu og Valskonur nýttu sér það.

Sara Sif Helgadóttir varði sitt fyrsta skot í leiknum frá Kristrúnu Steinþórsdóttur sem var komin í algjört dauðafæri, Valskonur brunuðu upp í sókn, og Elín Rósa Magnúsdóttir minnkaði forskot Framara í eitt mark, 17:18, með frábæru gegnumbroti.

Thea Imani jafnaði svo metin fyrir Val í 18:18 með marki úr hraðaupphlaupi þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Liðin skiptust á að skora eftir þetta en þegar þrjár mínútur voru til leiksloka kom Þórey Rósa Stefánsdóttir Framkonum yfir, 22:21. Steinunn Björnsdóttir kom svo Fram tveimur mörkum yfir, 23:21, þegar þrjár mínútur voru til leiksloka og Valskonum tókst ekki að minnka þann mun.

Hafdís Renötudóttir átti mjög góðan leik í marki Fram, varði ellefu skot, en Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst í liði Vals með fimm mörk.

Fram er því Íslandsmeistari í fyrsta sinn í fjögur ár en liðið varð síðast meistari árið 2018 og í 23. skiptið alls en ekkert lið hefur orðið oftar Íslandsmeistari í kvennaflokki.

Valur 22:23 Fram opna loka
60. mín. Leik lokið Leik lokið með sigri Fram sem er Íslandsmeistari í 23. sinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert