Stórkostlegt og þvílíkur heiður

Ómar Ingi Magnússon er íþróttamaður ársins 2022.
Ómar Ingi Magnússon er íþróttamaður ársins 2022. mbl.is/Hákon Pálsson

„Þetta er stórkostlegt og þvílíkur heiður,“ sagði handboltamaðurinn Ómar Ingi Magnússon í samtali við mbl.is, nokkrum mínútum eftir að hann fékk viðurkenningu fyrir að vera kjörinn íþróttamaður ársins, annað árið í röð.

„Þetta er aðeins öðruvísi í ár og ég átti alveg von á þessu, eða ég vissi allavega að þetta gat gerst. Ég er samt stoltur og ánægður,“ bætti Ómar við.

Hann varð markahæstur allra á EM í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar og var í lykilhlutverki hjá Magdeburg, sem varð þýskur meistari og heimsmeistari félagsliða. Hann var m.a. valinn besti leikmaður þýsku 1. deildarinnar.

„Það eru nokkrir hlutir sem standa upp úr á þessu ári. Mér fannst janúar gefa mikið þegar kemur að alls konar framtíðarhugsunum með landsliðinu. Það gaf okkur í landsliðinu orku og hjálpaði okkur að átta okkur á því hvað við getum. Þessir tveir titlar með Magdeburg voru svo ánægjulegir og þá sérstaklega deildartitilinn,“ sagði Selfyssingurinn.

Ómar Ingi Magnússon er lykilmaður í íslenska landsliðinu.
Ómar Ingi Magnússon er lykilmaður í íslenska landsliðinu. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Hann er enn þá aðeins 25 ára og ætlar sér enn lengra. „Ég er bara 25 ára og það er nóg eftir, ég tel mig eiga mitt besta eftir. Ég stefni að því að bæta mig á hverju ári og hverjum degi í rauninni.“

Ómar viðurkennir að hugurinn sé kominn á HM, sem fer fram í upphafi næsta árs. Hann finnur fyrir meiri væntingum frá íslensku þjóðinni en áður.

„Klárlega. Maður er búinn að vera með þetta í hausnum allt árið og á bakvið eyrað hvernig þetta verður í janúar. Við förum vel yfir hvað þarf að varast og hvað við þurfum að gera vel. Þetta kemur alltaf inn á milli í hausinn á manni.

Maður finnur alltaf fyrir meiri áhuga og vonum. Það er ljómandi gott. Við viljum hafa það þannig og við viljum standa undir því. Við setjum pressu á okkur sjálfa, hver og einn, og sú pressa er meiri en sú sem aðrir setja á okkur. Það er öðruvísi að fara í þetta mót. Það var meiri óvissa í fyrra. Við sjáum hvað skeður og hvað við getum, ef vel gengur,“ sagði Ómar Ingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert