Hættur í stjórn HSÍ vegna Arnarlaxmálsins

Davíð Lúther.
Davíð Lúther. Ljósmynd/Aðsend

Davíð Lúther Sigurðarson, stjórnarmaður Handknattleikssambands Íslands, er hættur störfum fyrir sambandið vegna samnings HSÍ við Arnarlax sem var kynntur á dögunum.

Heimildin.is greinir frá þessu og þar segir Davíð að hann hafi hætt um leið og hann frétti að ákveðið hefði verið að semja við Arnarlax, en það var ákveðið á stjórnarfundi 6. nóvember sem hann missti af. 

Davíð kveðst vera laxveiðimaður sem styðji náttúruverndarsamtökin Icelandic Wildlife Fund sem hafa það yfirlýsta markmið að berjast gegn laxeldi í sjókvíum.

Heimildin birtir jafnframt tölvupóst Davíðs til formanns HSÍ, Guðmundar B. Ólafssonar, sem var svohljóðandi:

„Sælir báðir

Vil hér tilkynna ykkur að ég ætla að hætta í stjórn HSÍ eftir fréttir dagsins. 

Vont var að heyra þetta í gegnum Messenger og í símtölum frá fólki sem ég bæði þekki og þekki ekki neitt.

Róbert sagði mér að þetta hafi verið samþykkt þann 6.nóvember á fundi sem ég komst ekki á. Ég las fundargerðina sama dag og eina sem stóð var d. Styrktaraðilar RG kynnti stöðu styrktaraðila.

Ég á erfitt með að trúa því að það hafi ekki verið rökræður á þessum fundi vegna þessa máls og bjóst ég því við að þegar eldfim mál koma upp að hringt er í stjórnarmann sem er formaður markaðs og kynningarmála ef hann kemst ekki á fund til að bera undir eða jafnvel að segja að minnsta kosti frá því að þetta hafi verið samþykkt þar sem þetta klárlega fellur undir markaðs og kynningarmál. Ég hefði þá getað sagt mig úr stjórn þann 6.nóvember. Eins og ég sagði við Róbert áðan þá verð ég að vera samkvæmur sjàlfum mér, mótmæli àfram laxeldi í sjó og styð og styrki IWF.  

Það má taka mig út af vefnum svo hætt verði að hafa samband við mig útaf þessu máli.  Gangi ykkur sem allra best og áfram handbolti. 

Bestu kveðjur Davíð Lúther“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert