Stórsigur Brasilíu – Austurríki skoraði í blálokin

Tamires Lima sækir að Úkraínu í dag.
Tamires Lima sækir að Úkraínu í dag. AFP/Henning Bagger

Bruno de Paula og Mariana Costa fóru mikinn fyrir Brasilíu þegar liðið vann öruggan stórsigur gegn Úkraínu í G-riðli heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik í Fredrikshavn í Danmörku þar sem mótið hófst í dag.

Leiknum lauk með fimmtán marka sigri Brasilíu, 35:20, en de Paula og Costa gerðu sér lítið fyrir og skoruðu sjö mörk hvor.

Jafnræði var með liðunum á fyrstu mínútum leiksins en um miðjan fyrri hálfleikinn hrökk brasilíska liðið í gang og náði með ellefu marka forskoti, 17:6. Úkraínu tókst að laga stöðuna undir lok fyrri hálfleiks og var staðan 17:10, Brasilíu í vil, í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var aldrei spennandi en Brasilía komst þrettán mörkum yfir, 26:13, þegar síðari hálfleikurinn var hálfnaður og Úkraína átti fá svör á síðustu fimmtán mínútum leiksins.

Adriana de Castro skoraði fimm mörk fyrir Brasilíu en þær Tetiana Poliak og Tamara Smbatian skoruðu fjögur mörk hvor fyrir Úkraínu.

Dramatískur sigur Austurríkis

Katarina Pandza var markahæst hjá Austurríki þegar liðið vann nauman sigur gegn Suður-Kóreu, 30:29, í C-riðli keppninnar í Stavanger í Noregi.

Austurríki byrjaði leikinn betur og náði snemma sex marka forskoti, 9:3. Suður-Kóreu tókst að minnka muninn í tvö mörk, 10:8, en Austurríki var sterkari undir lok fyrri hálfleiks og leiddi 16:12 í hálfleik.

Austurríki komst í 17:12 strax í upphafi síðari hálfleiks en Suður-Kóreu tókst að jafna metin í 18:18 og eftir það skiptust liðin á að skora. Austurríki fékk víti á lokasekúndum leiksins í stöðunni 29:29 og Pandza skoraði úr vítinu og tryggði Austurríki sigur.

Pandza skoraði átta mörk í leiknum og Patricia Kovács sjö en Bitna Woo var markahæst hjá Suður-Kóreu með 11 mörk.

Patricia Kovacs og Mirela Dedic fagna í Stavanger.
Patricia Kovacs og Mirela Dedic fagna í Stavanger. AFP/Beate Oma Dahle
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert