Gott veganesti

Mynd af skemmtilegu marki sem Tjörvi Týr Gíslason skoraði í …
Mynd af skemmtilegu marki sem Tjörvi Týr Gíslason skoraði í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

„Vörnin var geggjuð, við vorum að beina þeim inn í ákveðna tapaða bolta og erum því með miklu færri tapaða bolta en þeir sem er geggjað,“ sagði Agnar Smári Jónsson í viðtali við mbl.is eftir sigur 33:28-sigur Vals gegn úkraínska liðinu Motors á Hlíðarenda í 32-liða úr­slit­um Evr­ópu­bik­ars karla í hand­bolta í kvöld.

„Leikurinn spilaðist smá eins og leikurinn úti, þeir jafna á köflum í fyrri hálfleik en svo náum við að hlaupa yfir þá, sem er okkar helsta vopn, í seinni hálfleik,“ sagði Agnar sem skoraði sjö mörk í kvöld.

Valur vann leikinn í dag 33:28 og einvígið samtals 68-59.

„Sigur gefur manni alltaf eitthvað gott, hvort sem maður vinnur með einu eða miklum mun. Eins marka leikir gefa manni aðeins meiri orku en sigur er alltaf jákvæður og á eftir að fleyta okkur áfram, sérstaklega eftir tapið gegn KA á heimavelli síðast.

Okkur fannst við skulda eftir það og þetta var síðasti heimaleikurinn okkar á tímabilinu. Við eigum núna þrjá útileiki eftir og þetta er gott veganesti inn í það,“ sagði Agnar í viðtali við mbl.is eftir leik.

„Okkur hefur gengið vel í deildinni og það hefur verið þokkalegt álag. Þetta er þriðji Evrópuleikurinn fyrir jól og þeir eru að koma vel inn í þetta.

Við höfum verið góðir nema kannski í síðasta leik gegn KA, þeir voru reyndar flottir á móti okkur og við ekkert spes, við vissum hvað við þurftum að bæta upp fyrir.

Sá leikur beit okkur í rassagatið, en það hefur verið fínn stígandi og við erum hægt og rólega að verða betri og betri, færri tapaðir boltar og þeir sem eru að koma nýir inn eru að koma mjög vel inn í þetta. Við erum spenntir fyrir þessum þremur leikjum sem eru að koma fyrir jól og svo framhaldinu,“ sagði Agnar. 

Björgvin Páll Gústavsson stóð vaktina í markinu í kvöld.
Björgvin Páll Gústavsson stóð vaktina í markinu í kvöld. mbl.is/ Eyþór Árnason

Valsarar voru með gott forskot allan leikinn og settu nokkur skemmtileg mörk og virtust hafa gaman af leiknum.

„Það var eitthvað stress fyrir leik en svo þegar við vorum komnir inn á völlinn þá fauk það allt í burtu og við spiluðum okkar leik.

Tókum nokkur sirkusmörk sem þeir eru líka þekktir fyrir og eitthver skrautkerfi sem við náðum að stoppa í dag, við gerðum ekkert slíkt úti, kannski eitt sem klikkaði svo við áttum þau inni.

Monsi er alltaf einhver töffari, troða yfir markmanninn eða setja hann aftur fyrir bak, með eitthvað fjólublátt, gult, hvítt hár og skarpa línu, hann var nettur og ég var ánægður með hann,“ sagði hársnyrtirinn og handboltamaðurinn Agnar Smár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert