Aron: Á ég að vera algjör fáviti?

Aron Pálmarsson þrumar að marki í kvöld.
Aron Pálmarsson þrumar að marki í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrirliðinn Aron Pálmarsson átti stórleik í kvöld þegar lið hans FH vann Aftureldingu 32:29 í hörkuleik í úrvalsdeild karla í handknattle, sem fram fór í íþróttamiðstöðinni að Varmá í Mosfellsbæ.

Aron skoraði hvorki meira né minna en 15 mörk og var með sex stoðsendingar.

Mbl.is ræddi við Aron strax eftir leik í kvöld og hafði hann þetta að segja:

„Stórkostlegur sóknarleikur og varnarleikur hjá okkur í kvöld en það vantaði aðeins upp á markvörsluna. Ég ætla samt að gefa Danna (Daníel Freyr Andrésson) að þetta er einungis hans annar leikur á tímabilinu þar sem hann á ekki topp leik.“

Þú skorar 15 mörk í leiknum. Það er nú ekki alltaf þannig hjá þér þar sem þú ert meira í stoðsendingunum.

„Þeir voru flatir á mig í byrjun og þeir voru ekkert að stíga út í mig og ég þarf þá auðvitað að refsa fyrir það. Ég hef ekki verið að skjóta mikið þannig að kannski var þetta rétt upplegg hjá Gunna (Gunnari Magnússyni) þar sem ég er bara að skjóta 6-7 skotum í leik, en já þetta var frábært.“

Það er ljóst að þið munuð fara í jólafríið á toppnum sama hvernig næsti leikur gegn Val fer. Er FH lang besta liðið í deildinni sem stendur?

„Við töpuðum fyrir Val og eigum leik gegn þeim í næstu viku. Við spiluðum frábærlega í dag í jöfnum leik en ég ætla ekki að fara svo langt að segja að við séum lang besta liðið.

Ég get samt tekið undir að það sé stígandi í okkar leik og við erum alltaf að ná betur og betur saman í liðinu auðvitað lýgur taflan ekki. Þetta eru samt alltaf mjög erfiðir leikir en það er svo gaman í þessari deild, hún er svo mikil ástríðu deild.“

Næsti leikur og jafnframt sá síðasti fyrir jólafrí er á móti Val.

Er FH á betri stað í leik sínum heldur en í september þegar liðin áttust síðast við?

„Já, ég vil meina það. Auðvitað breytist leikstíllinn með komu minni í ljósi þess að ég tek mikið pláss en með hverri vikunni erum við að verða betri og það eru miklar framfarir hjá okkur öllum.

Okkur líður held ég öllum alltaf betur og betur með að spila saman þannig að já ég tel að við séum á betri stað en í september.“

Þú sagðir sjálfur eftir leikinn í september að það hafi vantað meira framlag frá þér í þeim leik ásamt því að vörnin hefði mátt vera betri. Megum við eiga von á sams konar leik frá þér á móti Val í næstu viku og í kvöld?

„Á ég að vera algjör fáviti og lofa 15 mörkum í næsta leik?“ sagði Aron hlæjandi og hélt svo áfram:

„Nei ég held að ég hafi verið með um 15 stoðsendingar í leik um daginn og þá stigu menn mikið út í mig sem losaði um aðra leikmenn. Þetta fer allt eftir því hvað Óskar [Bjarni Óskarsson þjálfari Vals] gerir.

Annað hvort fær hann 15 mörk frá mér í fangið eða 15 stoðsendingar á sig. En að öllu gamni slepptu þá erum við með fleiri leikmenn sem geta skorað 10-12 mörk en ég ætla ekki að lofa 15 mörkum á móti Val,“ sagði Aron hress og kátur í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert