Óli Stef: Tækifæri til þess að lenda í alvöru veseni

Ólafur Stefánsson tók við stjórnartaumunum hjá Aue í Þýskalandi um …
Ólafur Stefánsson tók við stjórnartaumunum hjá Aue í Þýskalandi um miðjan síðasta mánuð. mbl.is/Styrmir Kári

Ólafur Stefánsson, fyrrverandi fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, tók við stjórnartaumunum hjá þýska B-deildarfélaginu Aue um miðjan síðasta mánuð.

Ólafur, sem er fimmtugur, er af mörgum talinn besti handboltamaður sem Ísland hefur átt en hann lét af störfum sem aðstoðarþjálfari þýska fyrstudeildarfélagsins Erlangen um miðjan ágúst.

Hann stýrði Val í úrvalsdeildinni árið 2013 og var aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins frá 2015 til 2016, þegar Aron Kristjánsson var með liðið, en hefur síðan þá lítið verið í þjálfun þangað til hann tók við stöðu aðstoðarþjálfara Erlangen í mars á síðasta ári.

Aue situr í 18. og neðsta sæti þýsku B-deildarinnar með fjögur stig eftir fyrstu 15 umferðirnar og hefur aðeins unnið tvo leiki í deildinni til þessa.

Góður staður til að byrja á

„Þetta er búið að vera allt í lagi ef svo má segja en okkur hefur gengið erfiðlega að vinna leiki,“ sagði Ólafur í samtali við Morgunblaðið.

„Við erum búnir að tapa fjórum leikjum í röð frá því ég kom sem er auðvitað ekkert frábært en liðið var heldur ekki að vinna marga leiki áður en ég kom og var neðst í deildinni. Það tekur tíma að byggja upp lið og ég var fenginn hingað til þess að halda liðinu uppi. Mér bauðst að gerast aðalþjálfari hérna og mér fannst tækifærið gott. Ég fann það eftir tímann hjá Erlangen að ég vildi komast í þannig starf og þetta er góður staður til þess að byrja á.

Þetta er krefjandi starf og það er mikil vinna í gangi á bak við tjöldin en þegar allt kemur til alls þá ertu bara dæmdur út frá því hvort þú sért að vinna eða tapa leikjum. Þetta er klárlega áskorun og ég hef verið þekktur fyrir það í gegnum tíðina að gera sjálfum mér grikk og lenda í veseni. Ég sá þarna stórkostlegt tækifæri til þess að lenda í alvöru veseni og á sama tíma upplifa eitthvað nýtt og núna er maður bara að vinna í því að finna út úr því,“ sagði Ólafur léttur.

Ítarlegt viðtal við Ólaf má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert