Geta ekki hælt sér af því að hafa unnið vængbrotnir

HK-ingurinn Sigurður Jefferson Guarino reynir að stöðva Haukamanninn Ólaf Ægi …
HK-ingurinn Sigurður Jefferson Guarino reynir að stöðva Haukamanninn Ólaf Ægi Ólafsson á Ásvöllum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson
Sebastian Alexandersson þjálfari HK var brattur þrátt fyrir tveggja marka tap gegn Haukum á Ásvöllum í úrvalsdeild karla í handknattleik í kvöld.

Spurður að því hvort að úrslitin í kvöld hafi verið sanngjörn hafði Basti þetta að segja:

„Ég verð að viðurkenna það að þetta voru sanngjörn úrslit. Við vorum í vandræðum sóknarlega og við vorum ekki eins hraðir og við erum vanir að vera. Ég er samt stoltur af strákanum að við erum hér í hörkuleik gegn Haukum þrátt fyrir að vera ekki að spila vel."

Þið eruð að mæta Haukum með bakið upp við vegg með töluvert af leikmönnum fjarverandi og búnir að tapa 4 leikjum í röð. Heldur þú að það hafi spilað inn í að munurinn var ekki meiri en raun bar vitni?

„Nei það tel ég ekki. Við höfum sjálfir mætt í leiki skömmustulegir eftir að hafa spilað tvo slæma leiki á undan og við vissum að við myndum mæta þeim brjáluðum í kvöld. Það má ekki gleyma því að það vantar 7 leikmenn í HK liðið og Haukarnir geta ekki hælt sér fyrir að hafa unnið okkur vængbrotnir í kvöld af því að þeim vantaði leikmenn."

Næsti leikur hjá HK er gegn Gróttu áður en þið farið í jólafrí. Planið er væntanlega að sækja tvö stig úr þeim leik. Ertu bjartsýnn á góð úrslit í þeim leik?

„Við erum að fara í alla leiki til að vinna þá. Ég held að það sjáist vel á leik okkar. Við erum búnir að spila við Aftureldingu, ÍBV og Hauka og þetta eru allt hörkuleikir þrátt fyrir að þetta séu allt lið sem eru langt fyrir ofan okkur á pappírum. Leikurinn á móti Gróttu er alveg jafn mikilvægur og þessir leikir og afhverju ættum við ekki að geta unnið hann eins og hvern annan leik?" sagði Basti að lokum í samtali við mbl.is.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert