Stekk ekki frá borði þó á móti blási

Guðmundur Bragi Ástþórsson brýst í gegnum vörn HK í leiknum …
Guðmundur Bragi Ástþórsson brýst í gegnum vörn HK í leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson
Ásgeiri Erni Hallgrímssyni þjálfara Hauka var létt þegar strákarnir hans unnu HK í kvöld og bundu enda á fjögurra leikja taphrinu liðsins í úrvalsdeild karla í handknattleik.

„Við náðum að sækja sigur í kvöld sem ég er ofboðslega ánægður með og ég er stoltur af strákunum fyrir frammistöðu þeirra í þessum leik."

Það var allt annar tónn í haukaliðinu í kvöld samanborið við undanfarna leiki. Var farið í einhverjar sérstakar aðgerðir í aðdraganda leiksins í kvöld?

„Nei í rauninni ekki. Þetta var frekar hefðbundið í vikunni og við ræddum bara saman og fórum yfir hvað væri búið að gerast og hvernig við ætluðum að tækla það. Þetta var algjört slys á móti Fram og mönnum fannst þetta það vont að þeir ætluðu að svara fyrir þetta. Við áttum margar frábærar sóknir í dag sem við höfum ekki séð í margar vikur og ég er bara ofboðslega ánægður með þetta."

Stefán Rafn Sigurmannsson mætti óvænt í leikinn í kvöld en það var ekki von á honum fyrr en í febrúar. Gafstu honum eitthvað töfralyf til koma honum í stand fyrir leikinn í kvöld?

„Nei þetta er bara búin að vera erfið vika, mikið um meiðsli og fáir á æfingum af ýmsum ástæðum. Síðan meiðist Guðmundur Hólmar í lok æfingar í gær og Stefán er alvöru karakter sem svaraði kallinu og mætti fyrr en áætlað var."

Verður hann með í næstu leikjum?

„Við þurfum aðeins að fara yfir hvernig öxlin á honum er og ef hún er ekki að detta af þá verður hann með."

Ef við spólum aðeins til baka og förum í eftirmála leiksins gegn Fram í síðustu viku. Það var ansi þungt í þér hljóðið og ýmsir fjölmiðlar fóru að velta fyrir sér hvort þetta væri búið hjá þér og gengu jafnvel svo langt að taka hlutina úr samhengi um það sem þú sagðir eftir leikinn. Ásgeir Örn er ekkert að fara hætta með Hauka er það?

„Ég er ekkert að fara hætta. Ég stekk ekki frá borði þó á móti blási og vissulega var þetta erfitt og tapið á móti Fram var mjög vont. Ég veit hvað þú átt við þegar þú talar um að hlutirnir hafi verið teknir úr samhengi og ég er innilega sammála þér með það en sumir vilja bara fá fyrirsagnir og ég er bara í því að þjálfa og mér finnst  gaman að þjálfa og ætla að halda því áfram."

Síðasti leikur Hauka fyrir jól er gegn Stjörnunni í Garðabæ. Er ekki mikilvægt að enda árið með sigri?

„Jú það er klárt. Nú þurfum við bara að halda áfram og byggja ofan á þetta. Okkur er létt að hafa náð sigri í kvöld. Desember er alltaf mjög erfiður í æfingum og þá reynum við að halda þessu léttu og skemmtilegu og höldum áfram að reyna bæta okkur."

Verður Guðmundur Hólmar kominn úr meiðslum í næsta leik?

„Það þykir mér mjög ólíklegt. Við þurfum að sjá til en það er ólíklegt eins og staðan er núna." sagði Ásgeir Örn að lokum. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert