Lét til leiðast eftir einn til tvo bjóra

Martha Hermannsdóttir er mætt aftur á handboltavöllinn en hún verður …
Martha Hermannsdóttir er mætt aftur á handboltavöllinn en hún verður 41 árs gömul á árinu. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Handknattleikskonan Martha Hermannsdóttir sneri óvænt aftur á völlinn um síðustu helgi með uppeldisfélagi sínu KA/Þór þegar liðið tapaði með fimm marka mun gegn ÍR, 22:17, í 17. umferð úrvalsdeildar kvenna í Skógarseli í Breiðholti.

Martha, sem er fertug og verður 41 árs í desember, lagði skóna á hilluna sumarið 2022 eftir afar farsælan feril en hún varð Íslands-, bikar- og deildarmeistari með Akureyrarliðinu árið 2021.

Hún var fyrirliði KA/Þórs lengi vel en liðið er í miklu basli þessa dagana og situr sem stendur í áttunda og neðsta sæti úrvalsdeildarinnar með fimm stig, stigi minna en Afturelding og tveimur stigum minna en Stjarnan.

„Ég er fyrst og fremst gríðarlega mikill Akureyringur og ég vildi hjálpa félaginu mínu í þeirri erfiðu stöðu sem það er í,“ sagði Martha í samtali við Morgunblaðið þegar hún ræddi endurkomu sína á handboltavöllinn.

Á ekki mikið eftir

„Ég er á leiðinni í hálfan járnkarl núna í haust og er því búin að æfa mjög vel í allan vetur. Ég skellti mér til Þýskalands á Evrópumótið í handbolta og þar var öll stjórn KA/Þórs líka. Eftir einn til tvo bjóra, og mikla pressu frá stjórnarmönnum félagsins, samþykkti ég að mæta á eina æfingu og sjá svo til eftir það. Eftir fyrstu æfinguna leið mér í raun eins og ég hefði aldrei hætt í handbolta og ég ákvað að slá til.

Ástæðan fyrir því að ég hætti á sínum tíma var sú að skrokkurinn var ekki alveg nægilega góður síðustu tímabilin mín í handboltanum. Á sama tíma er ég í mjög góðu formi og allt það en ég fann það eftir leikinn gegn ÍR að ég á ekki marga leiki eftir í mér. Ég er hins vegar staðráðin í að hjálpa mínu liði og klára tímabilið en það er klárt mál að ég mun ekki taka annað tímabil með KA/Þór,“ sagði Martha í léttum tón.

Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert