Sannfærandi sigur FH-inga

Marel Baldvinsson úr Fram sækir að marki FH í kvöld.
Marel Baldvinsson úr Fram sækir að marki FH í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

FH og Fram áttust við í lokaleik 17. umferðar Íslandsmóts karla í handknattleik í kvöld og lauk leiknum með sigri FH, 36:25.

FH er því á ný með þriggja stiga forystu á Val á toppi deildarinnar og er með 31 stig gegn 28 þegar  fimm umferðir eru eftir. Fram er áfram í fimmta sætinu með 19 stig.

Lið FH komst í 1:0 og lét þá forystu aldrei af hendi í leiknum. Það tók FH um 20 mínútur að hrista lið Fram almennilega af sér og framan af var munurinn oftast í kringum 2-3 mörk. Aðalmunurinn á liðunum í fyrri hálfleik var markvarslan en Daníel Freyr Andrésson varði tíu skot í fyrri hálfleik, þar af eitt vítaskot, á meðan markverðir Fram vörðu aðeins eitt skot.

Bæði lið voru frekar mistæk í fyrri hálfleik og þá sérstaklega í sókninni. Jón Bjarni Ólafsson línumaður FH lenti í vandræðum snemma í fyrri hálfleik þegar hann var kominn með gult spjald og tvær brottvísanir.

Liðin gengu til hálfleiks í stöðunni 17:12 fyrir FH. Markahæstur í liði FH var Einar Bragi Aðalsteinsson með fimm mörk í fyrri hálfleik en í liði Fram voru þeir Rúnar Kárason og Marel Baldvinsson með fjögur mörk hvor.

Síðari hálfleikur var algjör einstefna og yfirspiluðu leikmenn FH lið Fram á öllum sviðum leiksins. Um miðjan síðari hálfleik meiddist Marel Baldvinsson í liði Fram þegar hann fékk skurð á höfuðið eftir einvígi við Jóhannes Berg Andrason.

Eftir það sáu gestirnir aldrei til sólar. FH jók muninn jafnt og þétt og vann að lokum 11 marka sigur, 36:25.

Markahæstur í liði FH var Einar Bragi Aðalsteinsson með níu mörk. Daníel Freyr Andrésson varði 13 skot, þar af tvö vítaskot. Axel Hreinn Hilmisson varði tvö skot.

Hjá Fram skoraði Marel Baldvinsson sjö mörk og Lárus Helgi Ólafsson varði fjögur skot.

FH 36:25 Fram opna loka
60. mín. Fram skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert