Enn líklegra að HM fari fram á Íslandi

Íslenska landsliðið gæti leikið leiki á HM á heimavelli.
Íslenska landsliðið gæti leikið leiki á HM á heimavelli. AFP/Ina Fassbender

Miklar líkur eru á að Ísland verði á meðal gestgjafa þegar HM karla í handbolta 2029 eða 2031 fer fram.

Alþjóða handknattleikssambandið tilkynnti að aðeins tvær umsóknir standi eftir fyrir mótin. Önnur frá Íslandi, Danmörku og Noregi og hin frá Frakklandi og Þýskalandi.

Sádi-Arabía hugðist einnig ætla að freista gæfunnar, en Arabíuþjóðin er ekki á lista IHF.

Þýskaland verður gestgjafi árið 2027 og því líklegra að Norðurlandaþjóðirnar verði fyrir valinu árið 2029.

Ný þjóðarhöll verður að rísa svo Ísland geti orðið gestgjafi á HM, en Laugardalshöll er ekki lögleg þegar kemur að keppnisleikjum. HSÍ hefur fengið undanþágu undanfarin ár til að Ísland geti leikið heimaleiki hér á landi.  

Ísland hefur einu sinni haldið stórmót í handbolta, en HM 1995 fór fram hér á landi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert